Hefur raunverð hækkað minnst í Finnlandi þar sem verð hefur haldist nær óbreytt. Meiri sveiflur einkenna húsnæðismarkaðinn hér á landi samanborið við nágrannaþjóðirnar, hvort sem litið er til verðþróunar eða uppbyggingar íbúða.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þar segir að hækkunin hér á landi sé nær öll vegna hækkana á seinni hluta árs 2016 og 2017. Síðan þá hafi þróunin verið nokkuð áþekk hér á landi og í löndunum í kringum okkur en þó með undantekningum.
Hækki nú hraðar á hinum Norðurlöndunum
Nýjustu mælingar um þróunina á árinu 2020 gefa til kynna að verð sé að hækka nokkuð hraðar víða í nágrannalöndunum en hér á landi eftir að heimsfaraldurinn hófst.
„12 mánaða hækkun mældist um 5% milli ára í Svíþjóð og Danmörku á þriðja ársfjórðungi síðasta árs en 4% hér. Sambærilegar mælingar vegna fjórða ársfjórðungs eru einungis fáanlegar fyrir Svíþjóð og Ísland enn sem komið er og mælist hækkunin 3% hér á landi en tæp 9% í Svíþjóð samkvæmt mælingum OECD. Samkvæmt þessu eru vísbendingar um að nágrannalöndin séu sum að finna fyrir meiri spennu á fasteignamarkaði en við búum við hér eftir að faraldurinn hófst,“ segir í nýrri Hagsjá Landsbankans.
Eru vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands sem bankinn greip til við upphaf faraldursins og leiddu til vaxtahækkana á húsnæðislánum talin vera ein ástæða verðhækkana hér á landi í fyrra.
Það sama virðist ekki gilda um verðhækkanir hjá nágrannaþjóðum þar sem stýrivextir voru víða komnir niður í 0% áður en faraldurinn hófst og hafa því ekki verið lækkaðir.
Samkomutakmarkanir einnig spilað inn í
Að sögn hagfræðideildar Landsbankans er ólíklegt að vaxtabreytingar einar og sér skýri hækkanir á íbúðaverði á seinni hluta 2020, hér eða annars staðar.
„Samkomutakmarkanir hafa til að mynda gert neyslumöguleika víða um heim takmarkaða og sparnaður margra því ef til vill ratað inn á fasteignamarkað með tilheyrandi þrýstingi á verðlag.“
Framboð íbúðarhúsnæðis er önnur stærð sem er sögð hafa áhrif á verðlag á markaði og voru verðhækkanir áranna 2016 og 2017 hér á landi meðal annars raktar til skorts á framboði íbúða og þá einna helst ákveðinna tegunda.
Meiri sveiflur á Íslandi
Að sögn hagfræðideildar Landsbankans sýna tölur að bygging hafi að jafnaði byrjað á fleiri íbúðum á hverja 100 þúsund íbúða á ári samanborið við nágrannalöndin.
Hér hafi að meðaltali verið hafin bygging á tæplega 670 íbúðum á hverja 100.000 íbúa á ári frá aldamótum á meðan fjöldinn er á bilinu 350 til 580 í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Sveiflurnar séu þó meiri milli ára á Íslandi en annars staðar.
„Tölur um ný verkefni á árinu 2020 liggja ekki fyrir, en samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins fækkar þeim sem eru á fyrstu byggingarstigum. Hagstofan greindi einnig frá því að útgefin byggingarleyfi á þriðja ársfjórðungi síðasta árs höfðu ekki mælst færri í a.m.k. áratug. Það eru því líkur á að sveiflur í uppbyggingu muni halda áfram hér á landi og vera meiri en hjá nágrannaþjóðum okkar,“ segir í Hagsjá Landsbankans.