Í kvöld sagði Jóhanna Vigdís varaþingmaður Samfylkingarinnar sig úr flokknum. Af orðum hennar má ráða hvernig landið liggur.
„Ég verð þó að viðurkenna að það eru mér vonbrigði að uppstillingarnefnd í Reykjavík kjósi að bjóða nýliðum, hæfu fólki sem sannarlega er meira en velkomið til starfa – og þó fyrr hefði verið - að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir kosningar til Alþingis næsta haust,“ skrifar Jóhanna.
Samkvæmt heimildum Vísis var henni boðið að taka þriðja sæti á lista en hún skipaði annað sæti fyrir síðustu kosningar.
„Þetta eru ekki bara harkaleg skilaboð til mín persónulega heldur ekki síður til annarra í grasrót Samfylkingarinnar - sem hafa lagt ómælda uppbyggingarvinnu af mörkum undanfarin ár. Sannarlega er ég seinþreytt til vandræða, en þegar mér ofbýður þá geri ég eins og góð kona sagði um árið; kýs með fótunum.“
Af þessu má ráða að efstu sæti á lista annars vegar skipa Helga Vala Helgadóttir og hins vegar Kristrún Mjöll Frostadóttir. Í öðru sæti annars Reykjavíkurkjördæmanna verður Jóhann Páll Jóhannsson og hinu líklega Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Hún var búin að segjast vilja fara í Kragann en það mun vera slík eftirspurn eftir henni meðal þeirra í Reykjavík, að þetta er það sem lagt hefur verið til. Þetta er þó ekki staðfest.
Hvað varðar þrálátan orðróm um að Heiða Björk Hilmisdóttir borgarfulltrúi sækist eftir sæti sem gefur góða möguleika á sæti á þingi, mun það vera svo að hún hafi augastað á sæti á lista sem hugsanlega gæti þýtt varaþingmannssæti.
Samkvæmt könnunum mælast inni tvö þingmannssæti í hvoru kjördæminu um sig. Innan Samfylkingar er það metið sem svo að 3. sætið sé baráttusæti.