Viðskipti innlent

Engin króna fannst í 310 milljóna gjaldþroti Austur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kampavínið flæddi á Austur um árabil en staðurinn var opinn langt fram eftir nóttu þar sem flöskuborð nutu vinsælda.
Kampavínið flæddi á Austur um árabil en staðurinn var opinn langt fram eftir nóttu þar sem flöskuborð nutu vinsælda. Vísir/Vilhelm

Gjaldþrot einkahlutafélagsins 101 Austurstræti, sem rak skemmtistaðinn Austur í miðbæ Reykjavíkur, nam 310 milljónum króna. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 7. október síðastliðinn og Sigurður Snædal Júlíusson skipaður skiptastjóri í þrotabúinu.

Skemmst er frá því að segja að ekki fannst ein einasta króna í þrotabúinu upp í lýstar kröfur.

Einkahlutafélagið var síðustu ár í helmingseigu Íranans Gholahomhossein Mohammad Shirazi og fyrirtækisins Alfacom General Trading. Síðarnefnda félagið var til helminga í eigu Effat Kazemi Boland annars vegar og Shirazi hins vegar.

Staðurinn var áður í eigu Ásgeirs Kolbeinssonar og Bakkagranda, félags í eigu Styrmis Þórs Braga­son­ar.

Miklar deilur stóðu um skemmtistaðinn milli Ásgeirs og Kamran Kei­van­lou, sem var í forsvari fyrir félag sem átti hlut í Austur, en báðir höfðu lögfræðinga á sínum snærum og voru deilur fyrirferðamiklar í fjölmiðlum. 

Kærði Ásgeir Kamran meðal annars til lögreglu fyrir hótanir en málið var fellt niður hjá lögreglu að sögn Kamran því enginn fótur hafi verið fyrir hótunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×