Innlent

Vill leiða lista Við­reisnar í Suður­kjör­dæmi

Atli Ísleifsson skrifar
Guðbrandur Einarsson er forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og bæjarfulltrúi Beinnar leiðar.
Guðbrandur Einarsson er forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og bæjarfulltrúi Beinnar leiðar.

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og bæjarfulltrúi Beinnar leiðar, hefur gefið kost á sér til þess að leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Í tilkynningu er haft eftir Guðbrandi að hann telji reynslu sína geta nýst flokknum og hjálpað til við að flokkurinn nái þingsæti í kjördæminu á nýjan leik. Jóna Sólveig Elínardóttir var þingmaður Viðreisnar fyrir Suðurkjördæmi á árunum 2016 til 2017.

Guðbrandur hefur unnið að sveitarstjórnarmálum í rúm tuttugu ár og gegnir nú stöðu forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar ásamt því að sitja í bæjarráði sem hann hefur gert mörg undanfarin ár.

„Þá starfaði ég einnig sem formaður/framkvæmdastjóri Verslunarmannafélags Suðurnesja í rúm 20 ár, sem formaður Landssambands ísl. verslunarmanna í 6 ár þar sem ég sat í stjórn í tæp 20 ár.

Þá tók ég einnig þátt í starfi Alþýðusambands Íslands um 14 ára skeið, bæði sem miðstjórnarmaður og sem fulltrúi sambandsins í ýmsum nefndum og ráðum.

Samfélagsmál í víðum skilningi þess orðs hafa verið mér hugleikin um árabil og ég hef áhuga á því að vinna, á vettvangi Viðreisnar, að því að bæta samélagið okkar, þar sem almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi.

Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að frjálslynd öfl á miðju stjórnmálanna nái árangri í næstu kosningum og fyrir því vil ég berjast.

Ég er giftur Margréti Sumarliðadóttur, hársnyrtimeistara og eigum við fimm uppkomin börn,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×