Gylfi skoraði í sigri E­ver­ton og grannarnir eru nú jafnir að stigum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi fagnar marki sínu í kvöld. Hann er funheitur á Anfield.
Gylfi fagnar marki sínu í kvöld. Hann er funheitur á Anfield. Laurenca Griffiths/Getty

Everton vann 2-0 sigur á Liverpool í Bítlaborgarslagnum nú síðdegis. Richarlison og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu mörk Everton en þetta var fyrsti sigur Everton á Anfield síðan 1999 og fyrsti sigurinn á Liverpool síðan 2010.

Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði á meðal varamanna Everton en það voru ekki liðnar þrjár mínútur er gestirnir voru komnir yfir. Stungusending James Rodriguez var hárfín inn á Richarlison sem kláraði færið vel framhjá varnarlausum Alisson í markinu.

Eftir það tóku meistararnir við leiknum og stýrðu ferðinni. Jordan Henderson átti frábært skot en Jordan Pickford sá við honum en skömmu síðar þurfti Henderson að fara af velli vegna meiðsla. Enn einn varnarmaður Liverpool á meiðslalistanum.

Everton fékk gullið tækifæri skömmu fyrir hálfleik til þess að tvöfalda forystuna. Lucas Digne gaf þá frábæra sendingu inn á teiginn þar sem hinn væng bakvörðurinn, Seamus Coleman, var mættur en skalli hans fór beint á Alisson í markinu. 0-1 í hálfleik.

Liverpool réð áfram ferðinni í síðari hálfleik, án þess að skapa sér opin marktækifæri, en Gylfi Þór kom inn á sem varamaður er hálftími var eftir af leiknum. Hann skoraði einmitt annað mark leiksins úr vítaspyrnu á 83. mínútu eftir að Trent Alexander-Arnold braut á Dominic Calvert-Lewin.

Hafnfirðingurinn var svellkaldur á vítapunktinum og þó að Alisson hafi farið í rétt horn þá réð hann ekki við spyrnuna. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-0. Fjórða tap Liverpol í röð á heimavelli. Liðin eru þar af leiðandi jöfn að stigum, með fjörutíu stig í sjötta og sjöunda sætinu, en Everton á leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira