Innlent

Elsti hópurinn boðaður í seinni bólusetningu

Heimir Már Pétursson skrifar
Þeir sem eru eldri en 90 ára og fengu fyrri bólusetningar sprautuna hinn 2. febrúar eru boðaðir til seinni sprautunnar næst komandi þriðjudag.
Þeir sem eru eldri en 90 ára og fengu fyrri bólusetningar sprautuna hinn 2. febrúar eru boðaðir til seinni sprautunnar næst komandi þriðjudag. Vísir/Vilhelm

Allir þeir sem eru níutíu ára og eldri eru boðaðir til seinni bólusetningar gegn kórónuveirunni á þriðjudag. Þeir sem misstu af fyrri bólusetningunni geta einnig mætt til að fá hana.

Fólk á aldrinum níutíu ára og upp úr sem fékk fyrri bólusetninguna gegn kórónuveirunni hinn 2. febrúar verður nú boðað til að koma til að fá seinni sprautuna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut 34 næst komandi þriðjudag. Boð verða send út með smáskilaboðum með tímasetningu fyrir hvern og einn sem heilsugæslan biður fólk að fara eftir.

Þeir sem eru á þessum aldri en hafa ekki fengið smáskilaboð með tímasetningu geta engu að síður mætt milli klukkan níu á þriðjudagsmorgun til klukkan þrjú til að fá seinni bólusetninguna.

Allir þurfa að staldra við í 15 mínútur að bólusetningu lokinni til að sjá hvort einhver bráðaeinkenni komi fram.Vísir/Vilhelm

Níutíu ára og eldri sem misstu af fyrri bólusetningunni munu einnig fá tímasett boð til að mæta í hana á þriðjudaginn. Heilsugæslan minnir fólk á að mæta með skilríki og með grímu.

Þá er fólk minnt á að bólusett er í axlarvöðva í almennu rými og fólk því beðið um að klæðast stutterma bol innst klæða. Allir þurfi síðan að bíða í fimmtán mínútur að bólusetningu lokinni til að jafna sig.

Fólk með bráðaofnæmi við stungulyfjum eða af óþekktum toga er ekki ráðlagt að fá bólusetningu. Þá er fólk sem ekki ætlar að þiggja bólusetningu beðið um að láta heilsugæsluna vita af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×