Innlent

Taldir tengjast meintum byssumanni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Annar hinna handteknu var síðdegis úrskurðaður í gæsluvarðhald til 26. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Annar hinna handteknu var síðdegis úrskurðaður í gæsluvarðhald til 26. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Vísir/Vilhelm

Tveir albanskir karlmenn voru í dag handteknir í tengslum við morðið í Rauðagerði um síðustu helgi. Tíu eru nú í haldi lögreglu vegna málsins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru mennirnir tveir handteknir í heimahúsi í Vesturbæ Reykjavíkur seint í gærkvöldi. Mennirnir tveir, sem eru í kringum þrítugt og fertugt, eru báðir sagðir tengjast meintum byssumanni, samlanda þeirra frá Albaníu sem var handtekinn á miðvikudagskvöld. Hann hafði verið eftirlýstur af lögreglu en gaf sig sjálfur fram. Annar mannanna var úrskurðaður í gæsluvarðhald síðdegis í dag.

Átta hafa nú þegar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins, en þeir koma frá sjö löndum; Íslandi, Albaníu, Litháen, Portúgal, Spáni, Rúmeníu og Eistlandi. Þeir eru allir á fertugsaldri nema Íslendingurinn sem reá fimmtugsaldri.

Húsleit hefur verið gerð á hátt í þrjátíu stöðum víða um land. Á heimili meints byssumanns fundust byssuskot á veggjum og gólfi og skothylki sem nú eru til rannsóknar. Útlit er fyrir að skotin séu úr sams konar byssu og notuð var síðasta laugardagskvöld, en hún er enn ófundin. Að líkindum var um skammbyssu með hljóðdeyfi að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×