Erlent

Fjölmenn mótmæli í skugga skothríðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur halda uppi myndum af Aung San Suu Kyi en hún og margir úr flokki hennar, sem vann stóran sigur í kosningum síðasta árs, eru nú haldið í stofufangelsi af hernum.
Mótmælendur halda uppi myndum af Aung San Suu Kyi en hún og margir úr flokki hennar, sem vann stóran sigur í kosningum síðasta árs, eru nú haldið í stofufangelsi af hernum. Vísir/AP

Þúsundir mótmælenda gengu um götur borga Mjanmar í morgun, þrátt fyrir að hermenn hafi skotið minnst tvo mótmælendur til bana í gær og sært marga aðra.

Vitni sögðu Reuters fréttaveitunni að tugir þúsunda hefðu mótmælt valdaráni hersins á götum Mandalay, næst stærstu borgar Mjanmar, þar sem skothríðin átti sér stað í gær.

Sjá einnig: Blóðugur dagur í Mjanmar

Mótmæli hafa í raun farið fram víðsvegar um landið og víða hafa þau verið mjög fjölmenn, ef marka má fréttaflutning erlendis frá.

BBC segir sambærilega sögu og að mótmælendur hafi alfarið hafnað loforðum hersins um að halda fljótt kosningar. Þeir vilji lýðræðislega kjörna leiðtoga landsins, eins og Aung San Suu Kyi úr haldi hersins.

Mótmælendur hafa einnig barið potta og pönnur til að vekja athygli á málstað sínum.

Herinn heldur því fram að mikið svindl hafi farið fram í kosningunum í fyrra, þar sem flokkur hennar, NLD, vann stóran sigur. Herinn hefur þó ekki fært sönnur fyrir því en forsvarsmenn hersins frömdu valdarán þann 1. febrúar.

Herinn hefur notast mikið við Facebook til að staðhæfa um kosningasvik en samfélagsmiðlafyrirtækið hefur lokað helstu síðum hersins og segir herinn hafa brotið gegn skilmálum fyrirtækisins varðandi það að hvetja til ofbeldis.

Ofbeldið í gær hefur verið fordæmt víða um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×