Hinn handtekni heitir Charles Polevich og var handtekinn á Long Island í New York-ríki í Bandaríkjunum en hann er grunaður um að hafa valdið bílslysi, ekið burt af vettvangi og átt við sönnunargögn, en faðir rapparans lést í slysinu.
Maraj var 64 ára þegar hann varð fyrir bíl þann 12. febrúar síðastliðinn. Hann var fluttur slasaður á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum. Lögreglan í Nassau-sýslu segir að Polevich hafi stoppað og farið út úr bílnum eftir að hafa ekið á Maraj og hafi kannað ástand hans. Síðan hafi hann farið aftur upp í bíl sinn og ekið í burtu að því er fréttastofa CBS greinir frá. Polevich verður leiddur fyrir dómara á miðvikudaginn.
Nicki Minaj, sem heitir réttu nafni Onika Tanya Maraj en er betur þekkt undir listamannsnafni sínu, hefur ekki tjáð sig opinberlega um andlát föður síns.