Erlent

Hálf milljón punkta á forsíðunni, einn fyrir hvert tapað líf

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Á forsíðu New York Times í dag eru 500 þúsund punktar, einn fyrir hvert líf sem tapast hefur í faraldrinum í Bandaríkjunum.
Á forsíðu New York Times í dag eru 500 þúsund punktar, einn fyrir hvert líf sem tapast hefur í faraldrinum í Bandaríkjunum. New York Times

Hátt í hálf milljón hefur látið lífið í Bandaríkjunum af völdum covid-19 frá því við upphaf faraldursins þar í landi. Stórblaðið New York Times birti af þessu tilefni hálfa milljón svartra punkta á forsíðu sinni, sem tákn fyrir hvern þann sem látið hefur lífið af völdum sjúkdómsins í landinu.

Rétt um ár er síðan fyrsta andlátið af völdum covid-19 var staðfest í Bandaríkjunum. Síðan þá hefur þeim farið fjölgandi sem tapað hafa baráttunni við sjúkdóminn en hvergi í heiminum hafa fleiri dauðsföll verið staðfest og í Bandaríkjunum. Þannig nálgast tala látinna nú hálfa milljón, sem jafngildir fleiri bandarískum mannslífum en týndust í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni og í Víetnam-stríðinu til samans að því er fram kemur í umfjöllun New York Times.

Punktunum sem prýða forsíðuna er raðað upp í súlu niður eftir síðunni endilangri þar sem punktunum er deilt niður í tímaröð. Þannig er mest bil á milli punkta efst í súlunni sem sýnir fyrstu dauðsföllin af völdum faraldursins í Bandaríkjunum. Þéttastir standa punktarnir neðarlega í súlunni, eða á sautján daga tímabili frá 2. til 19. janúar þegar skráð dauðsföll voru hvað flest. Á hádegi í gær höfðu verið staðfest 497.380 dauðsföll af völdum covid-19 í Bandaríkjunum. Ætla má að þeim hafi farið fjölgandi síðan þá.

Þótt þeim hafi farið fækkandi sem greinast með veiruna á degi hverjum og nú horfi á margan hátt til betri vegar nú þegar bóluefni er komið í umferð, eru þó vaxandi áhyggjur uppi vegna nýrra afbrigða veirunnar sem eru í töluverðum hlutfallslegum vexti.

Forsíða blaðsins var einnig með heldur öðru sniði en vanalega þann 24. maí í fyrra. Þá birti blaðið lista með nöfnum hluta þeirra Bandaríkjamanna sem týnt höfðu lífinu af völdum Covid-19 sjúkdómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×