Um­fjöllun og við­töl: Sel­­foss - Grótta 20-26 | Grótta skellti heima­­mönnum

Hjörtur Logi Guðjónsson skrifar
Grótta 3

Grótta vann í kvöld sterkan sex marka sigur gegn Selfoss í Hleðsluhöllinni, lokatölur 20-26. Stefán Huldar átti stórleik í marki Gróttu og var með 19 varin skot, eða um 49% markvörslu. Gestirnir voru sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins og sigurinn verðskuldaður gegn ríkjandi Íslandsmeisturum.

Mikið jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar og eins og við var að búast var það vörn og markvarsla sem var í aðalhlutverki. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var enn allt jafnt, 6-6 og það virtist ekkert geta skilið liðin tvö að.

Hægt og bítandi voru það þó gestirnir sem náðu betri tökum á leiknum. Þeir héldu uppteknum hætti í vörninni og fóru að nýta sóknirnar sínar betur. Birgir Steinn Jónsson átti stóran þátt í að koma Gróttumönnum í forystu með nokkrum mjög góðum mörkum utan af velli. Þegar um átta mínútur voru eftir af hálfleiknum var Grótta komið með þriggja marka forskot og litu vel út. Selfyssingar tóku leikhlé til að reyna að rétta sinn hlut við, en það tókst ekki og Grótta hélt forystunni út hálfleikinn. Staðan þegar liðin gengu til búningsklefa var 11-14 fyrir gestina, en þá átti enn þá eftir að spila mikið af handbolta.

Fyrstu mínúturnar var aftur nokkuð jafnræði með liðunum. Selfyssingar fengu nokkur tækifæri til að minnka muninn niður í eitt mark, en góð vörn Gróttumanna með Stefán Huldar í stuði fyrir aftan sig kom í veg fyrir það.

Þegar að líða fór á seinni hálfleikinn fór Grótta að auka forskot sitt. Þegar rúmlega 11 mínútur voru eftir af leiknum var munurinn orðinn fimm mörk og róðurinn farinn að þyngjast fyrir Selfyssinga. Selfoss fékk þá nokkur tækifæri til að minnka muninn aftur niður í tvö mörk, en aftur var það góð vörn Gróttumanna og flott markvarsla Stefáns sem kom í veg fyrir það.

Selfyssingar virtust í rauninni aldrei líklegir til að stela sigrinum af Gróttu, og niðurstaðan sanngjarn sex marka sigur strákanna frá Seltjarnarnesi.

Af hverju vann Grótta?

Gróttumenn voru mun ákveðnari í leiknum. Varnarleikur þeirra var mjög góður stærstan hluta leiksins og Stefán Huldar, besti leikmaður seinustu umferðar, hélt uppteknum hætti og varði eins og óður maður. Mögulega hefðu Selfyssingar getað gert mun betur á öðrum degi, en við tökum ekkert af spilamennsku Gróttu, sem var mjög góð.

Hverjir stóðu upp úr?

Stefán Huldar átti annan stórleik í marki Gróttu, en 19 varðir boltar og tæplega 50% markvarsla segja það sem segja þarf. Birgir Steinn Jónsson átti fínan sprett í fyrri hálfleik í sóknarleik Gróttu þar sem hann skoraði hvert markið á fætur öðru, sem hjálpaði Gróttumönnum að ná yfirhöndinni í leiknum.

Hvað gekk illa?

Selfyssingum gekk almennt illa að koma boltanum í netið í kvöld. Þrátt fyrir að vörn Gróttu hafi verið mjög erfið viðureignar, þá voru Selfyssingar oft sjálfum sér verstir. Þeir klikkuðu til að mynda á þrem vítum í röð og voru oft að reyna of erfið hluti í sókninni.

Hvað gerist næst?

Grótta heimsækir Hauka á Ásvelli á mánudaginn eftir viku. Haukar tilla sér á toppinn með sigri, en Grótta mætir full sjálfstrausts eftir tvo góða sigurleiki í röð.

Selfoss fær ÍBV í heimsókn á fimmtudaginn. Eftir þrjá tapleiki í röð dugar ekkert minna en sigur fyrir Selfyssinga ef þeir ætla að blanda sér í toppbaráttuna í vor.

Arnar Daði: Við erum bara fokking góðir

„Þetta er bara frábær sigur, og ég var að segja við strákana að þetta er ekkert sjálfsagt,“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu eftir sigurinn gegn Selfoss í kvöld. „Miðað við hvað strákarnir eru tilbúnir að leggja á sig og hversu vel undirbúnir strákarnir eru fyrir hvern leik og vinnusemin og allt það þá er þetta kannski ekkert skrítið. Handbolti snýst um að berjast og vera skynsamir og hafa trú á verkefninu, þetta eru ótrúlegir gæjar.“

Mikið jafnræði var með liðunum fyrsta korterið en svo hægt og bítandi tók Grótta völdin og náði góðu forskoti sem þeir létu aldrei af hendi. „Við erum búnir að mæta til leiks í alla leiki hingað til og kannski bara einhver smá skrekkur í byrjun. Auðvitað verður maður að hafa trú á því að maður geti unnið Selfoss, þetta er náttúrulega Íslandsmeistaralið og eitt dýrasta lið landsins þannig við þurfum bara að hafa trú á þessu. Við sjáum svo bara eftir korter að við erum í leik og förum að hafa trú á þessu og við erum bara fokking góðir. Maður reynir að kalla eftir trúnni alla vikuna og þegar að þeir sjá það í miðjum leik, til hvers að hætta þá?“

Grótta spilar gegn Haukum í næsta leik og Arnar talaði stuttlega um hann. „Það eru komnir tveir sigurleikir í röð núna, bæði á móti Fram og Selfoss og Haukarnir eru næstir. Þeir eru eitt af betri liðum landsins þannig að það verður erfitt en við ætlum að reyna að vera eins undirbúnir og við getum fyrir þann leik en maður veit aldrei hvernig leikurinn þróast fyrir fram en við ætlum að vera tilbúnir og grípa tækifærið þegar það gefst.“

Arnar Daði vildi svo ekkert hugsa of mikið út í stöðuna í töflunni, en Grótta getur nú með nokkrum góðum úrslitum í viðbót gert atlögu að úrslitakeppninni. „Ég gerði smá mistök fyrir Þórsleikinn með því að horfa aðeins upp fyrir okkur, en ég talaði um það strax eftir þann leik að við þyrftum að finna grunninn og fylgja okkar gildum og eins ógeðslega leiðinlegt og það hljómar, taka einn leik í einu. Það er bara þannig, við erum að taka einn leik í einu og við reynum að vera tilbúnir fyrir hvern leik. Ég veit að það er viðbjóðslegt að heyra þetta en það er það sem er að koma okkur á þann stað sem við erum, við erum ekkert að hugsa eitthvað lengra.“

Halldór Jóhann: Við ætlum helst að skora tvö mörk í hverri einustu sókn

„Þetta er í raun og veru bara mjög dapurt, ég verð að segja það, þetta var klárlega ekki það sem við ætluðum okkur í kvöld,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari Selfoss eftir tapið í kvöld. „Við eigum ekki að sætta okkur við að tapa með sex mörkum á heimavelli á móti Gróttu.“

Halldór hrósaði þó Gróttu fyrir sinn leik. „Ég tek ekkert af Gróttumönnum, þeir spiluðu frábærlega á mörgum köflum, en við vorum samt óttalegir aular. Við fáum bara á okkur tvö mörk á fyrstu 10 mínútunum, það er 4-2 fyrir okkur þegar það eru 10 mínútur búnar af leiknum og við erum að spila hörkuvörn. Svo fáum við 2-3 mörk á okkur og menn fara í eitthvað óöryggi og fara að horfa á næsta mann í staðin fyrir að halda okkur við okkar skipulag. Svo tökum við þetta óöryggi með okkur fram og hættum að skora, hann ver allt sem kemur á markið og við tökum slæmar ákvarðanir sóknarlega.“

Halldór Jóhann var greinilega mjög ósáttur við leik sinna manna í dag og hélt áfram að tala um slæma ákvarðanatöku. „Við ætlum helst að skora tvö mörk í hverri einustu sókn og helst að verjast tvisvar líka. Þetta var bara svona gangur leiksins, við höfðum alltaf tækifæri til að koma okkur almennilega inn í þetta aftur en við bara köstuðum því frá okkur.“

Selfyssingar hafa nú tapað þrem leikjum í röð, en næsti leikur er gegn ÍBV á fimmtudaginn. „Það er mjög stutt á milli og gríðarlega mikilvægt að gíra sig upp í þann leik. Við ætlum auðvitað að vinna þann leik, en við ætluðum líka að vinna Fram og við ætluðum að vinna Hauka, en þetta er bara eitt það slakasta sem ég hef upplifað með Selfossliðið. Ef þetta er ekki eitthvað til að kveikja í mönnum að bæta í þá veit ég ekki hvað. Menn tala um krísu og allt það og mér finnst það vera krísa að tapa með sex mörkum á heimavelli á móti Gróttu, ég verð bara að segja alveg eins og er.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira