Þórólfur skilaði tveimur minnisblöðum til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um helgina.
Annað minnisblaðið snýr að tillögum að afléttingum á innanlandsaðgerðum og hitt að skólastarfi þar sem núverandi reglugerð þar að lútandi fellur úr gildi 28. febrúar.
Hefur Þórólfur því lagt til að nýjar reglur um skólastarf taki gildi 1. mars. Tilslakanir innanlands gætu komið til framkvæmda um miðja þessa viku.
Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær gaf Þórólfur lítið upp varðandi hvaða afléttingar hann leggur til en sagði þó að í tillögum sínum væru tilslakanir í menntastofnunum og á skipulögðum menningarviðburðum. Þá væru einnig tillögur í minnisblaðinu sem snúa að áhorfendum á íþróttaviðburðum.
Líkt og áður í faraldrinum lagði Þórólfur áherslu á að fara yrði varlega í tilslakanir. Þannig þyrfti að fara sérstaklega varlega í afléttingar á krám þar sem þriðja bylgjan hefði byrjað þar.
Ef farið yrði í tilslakanir á starfsemi kráa nú yrðu þær hvað varlegastar. Þá sagði hann að grímuskyldan yrði áfram óbreytt.