Hátt í fimmtíu manns voru samankomnir í Ásmundarsal í Reykjavík á Þorláksmessu, þegar tíu manna samkomubann var í gildi. Lögregla hafði afskipti af samkomunni og greindi frá því í dagbókarfærslu til fjölmiðla að morgni aðfangadags að „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hefði verið á staðnum. Síðar staðfesti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að hann hefði verið í salnum.
Bæði Áslaug og Halla staðfesta við Ríkisútvarpið að þær hafi rætt saman í síma um málið á aðfangadag.
Áslaug segir í svari sínu að hún hafi hringt í Höllu til að spyrja um verklagsreglur um dagbókarfærslur lögreglu og persónuverndarsjónarmið. Hún hafi ekki gert athugasemdir við framkvæmd lögreglu í málinu. Þá hafi hún ekki rætt málið frekar við lögreglustjórann og ekki haft afskipti af rannsókninni.
Lögregla lauk rannsókn á Ásmundarsalarmálinu í lok janúar og sendi það ákærusviði. Þá greindi fréttastofa frá því nú í febrúar að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði áréttað reglur um samskipti við fjölmiðla við starfsfólk sitt. Embættið hafði áður lagst í skoðun á því hvort dagbókarfærslan, sem þótti óvenju ítarleg, teldist öryggisbrestur í skilningi persónuverndarlaga.