Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans. Rekja má hækkunina milli desember og janúar til þess að 1. janúar urðu launahækkanir á nær öllum vinnumarkaðnum á sama tíma. Lægstu laun innan kauptaxtakerfisins hækkuðu um 24 þúsund krónur á mánuði og hærri laun um 15.750 krónur. Töluverð hækkun launavísitölunnar í janúar kom því ekki á óvart og mögulega mun hún hækka eitthvað í febrúar vegna þessa, að sögn Hagfræðideildar Landsbankans.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,3% milli janúarmánaða 2019 og 2020 en launavísitalan hækkaði um 10,3% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukning milli ára er 5,8%.
„Kaupmáttur launa er því áfram mikill í sögulegu samhengi, þrátt fyrir aukna verðbólgu á síðustu mánuðum. Kaupmáttarvísitala hefur haldið nokkuð vel síðustu mánuði og hefur kaupmáttur launa aldrei verið hærri en nú í janúar.“
Stytting vinnuvikunnar ígildi launahækkunar
Þá bent á í Hagsjá Landsbankans að stytting vinnutíma sé talin ígildi launabreytinga og hafi því áhrif á launavísitölu. Þann 1. janúar tóku gildi ákvæði í kjarasamningum á opinberum markaði sem styttu vinnuviku um þrettán mínútur á dag hjá launafólki á mánaðarlaunum í dagvinnu.
Áhrif styttingar vinnutíma á launavísitölu á tímabilinu frá 2019 fram til nóvember 2020 hafa verið metin um 0,8 prósentustig. Fyrsta mat Hagstofunnar á áhrifum vinnutímastyttingar í janúar 2021 á launavísitöluna er um 0,4 prósentustig, eða rúmlega 10% af breytingu vísitölunnar um áramót.
Í nóvember höfðu laun á opinbera markaðnum hækkað um 9,9% milli ára, öllu meira hjá sveitarfélögunum en ríkinu. Á sama tíma hækkuðu laun á almenna markaðnum um 6,4%, af því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans.