Áttatíu létust af völdum Covid-19 í Svíþjóð síðasta sólarhringinn. Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnar landsins þar sem hertar takmarkanir voru kynntar.
Öllum veitingastöðum í Svíþjóð verður nú gert að loka klukkan hálfníu frá og með mánudeginum. Þá var hámarksfjöldi gesta í verslunum, verslunarmiðstöðvum og líkamsræktarstöðvum lækkaður.
Dómsmálaráðherra Noregs sagði á blaðamannafundi að vegna stöðunnar í Evrópu sé ekki tímabært að slaka á takmörkunum á landamærunum. Þá verður öllum sem koma til Noregs gert að fara í sóttkví í farsóttarhúsi á þeim stað sem þau komu til landsins.
Danir eru aftur á móti að létta á aðgerðum á mánudag. Opnað verður á ný í dýragörðum sem og í Tívolí og á Norður- og Vestur-Jótlandi fær helmingur grunnskólanema að mæta í skólann í einu. Mest verður slakað á aðgerðum á Borgundarhólmi, þar sem skólar verða opnaðir og hárgreiðslustofur líka, svo fátt eitt sé nefnt.