ÍBV vann eins mark sigur á Val í dag er liðin mættust í Olís-deild kvenna í dag. Lokatölur leiksins 20-21.
ÍBV byrjuðu leikinn af krafti. Valskonur náðu að jafna leikinn þegar 10 mínútur voru búnar af fyrri hálfleik og var jafnræði með liðunum nánast allan fyrri hálfleik.
Þegar 5 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fær Lina Cardell, leikmaður ÍBV beint rautt spjald fyrir brot á Ragnhildi Eddu og var Ragnhildur borin útaf.
Áfram var leikurinn í járnum og þegar flautað var til loka fyrri hálfleik leiddu ÍBV með einu marki, 11-12.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri. ÍBV leiddu með 1-2 mörkum lengst af en Valskonur voru aldrei langt undan og náðu á köflum að jafna.
Sterkur varnarleikur beggja liða og klaufalegir tapaðir boltar voru allsráðandi á síðustu mínútunum og kom ekki mark á síðustu fjórum mínútum leiksins. Lokatölur, 20-21.
Afhverju unnu ÍBV?
Þær mættu mun ákveðnari til leiks í dag, þær byrjuðu af krafti og stóðu mjög vel varnarlega.
Hverjar stóðu upp úr?
Hjá Val var það Þórey Anna Ásgeirsdóttir sem var atkvæðamest með 6 mörk. Á eftir henni voru það Mariam Eradze með 4 mörk.
Saga Sif var góð í markinu með 13 varða bolta 39% markvörslu og varði til að mynda tvö víti.
Hjá ÍBV var það Birna Berg Haraldsdóttir sem var atkvæðamest með 7 mörk.
Marta Wawrynkowska var öflug í markinu með 13 varða bolta, 39% markvörslu.
Hvað gekk illa?
Sóknarleikur beggja liða gekk brösulega. Það vantaði meiri áræðni í Valsliðið. Þær voru nálægt því að jafna leikinn en fóru illa með færin.
Hvað gerist næst?
Í næstu umferð sem fer fram laugardaginn 6. mars fá ÍBV, Fram til sín kl 13:30 og er leikurinn sýndur á Stöð 2 sport.
Valskonur sækja Stjörnuna heim einnig laugardaginn 6. mars kl 16:00 og er leikurinn sýndur á Stöð 2 sport.
Ágúst Þór Jóhannsson: Það vantaði örlítið meira þor í okkar sóknarleik.
,,Þetta er svekkelsi að ná ekki í tvö stig, við ætluðum okkur það. Varnarleikurinn var virkilega góður, við náðum að halda þeim í 21 marki sem ætti í raun að duga til að ná í tvö stig en því miður sóknarlega vorum við í basli,” sagði Ágúst Þór, þjálfari Vals, svekktur eftir naumt tap á móti ÍBV í dag.
Valskonur áttu möguleika á að jafna leikinn undir lokin en fóru illa að ráði sínu og því fór sem fór.
,,Það vantaði örlítið meira þor í okkar sóknarleik. Við spilum vörn vel og erum að skapa okkur lítið af hraðaupphlaupum. Við erum með um 24 skotklikk í svona leik og það er of mikið á móti jafn góðu liði og ÍBV.”
Næsti leikur Vals er á móti Stjörnunni.
,,Það er fullt sem við getum tekið með okkur. Frammistaðan í dag var mun betri en hún hefur verið í síðustu leikjum. Varnarleikurinn góður, hávörnin að verja 9 skot. Við þurfum að vinna í sóknarleiknum og við notum vikuna í það og vonandi verðum við í fínu standi á laugardaginn,” sagði Ágúst að lokum.
Hilmar Ágúst Björnsson: Það er hrikalega sætt að vinna
Hilmar Ágúst Björnsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, var sáttur með sigurinn á móti Val í dag.
,,Hörkuleikur í 60 mínutur. Það er hrikalega sætt að vinna,” sagði Hilmar í leikslok.
ÍBV mættu gríðarlega sterkar til leiks og leiddu með 1-2 mörkum nánast allan leikinn.
,,Þetta Valslið er með landsliðskonur í nánast hverri einustu stöðu. Marta ver frábæra bolta. við erum að stíga vel út í þær og gera þeim erfitt fyrir.”
Ester Óskarsdóttir er dottin úr hóp ÍBV en það virtist ekki koma að sök.
,,Við erum í hörkuformi og æfum vel. Við byrjum tímabilið með fullt af leikmönnum og þrjár dottar út. Við erum með hörku hóp og keyrum á þetta.”
ÍBV fá Fram í heimsókn í næstu umferð.
,,Það er hörku æfingavika framundan og við hlökkum til að mæta Frömmurum.”