Kári var í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins en þar fór hann víðan völl. Meðal annars um vonbrigðin í Ungverjalandi, landsliðsferilinn og fleira til.
Arnar Þór Viðarsson er nýr A-landsliðsþjálfari karla en áður var hann yfirmaður knattspyrnumála hjá sambandinu.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að sambandið vilji því finna nýjan mann í starfið á þessu ári og miðvörðurinn Kári hefur áhuga á starfinu.
„Eins og staðan er núna þá hef ég meiri áhuga á yfirsýn og stefnumótun á breiðari grundvelli og það má alveg koma fram hér að ég hef augastað á starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ. Ég hef séð og lært margt á löngum ferli í atvinnumennsku og verið partur af bæði versta og langbesta landsliði Íslandssögunnar og hef því þann samanburð,“ sagði Kári.
Hann bætti því við að þeir sem ráði þessum málum í Laugardalnum viti af áhuga sínum en Kári hefur verið fastamaður í landsliðinu til lengri tíma.
Hann á að baki 87 landsleiki og skorað í þeim sex mörk. Hann leikur með Víkingi í Pepsi Max deild karla og segir í sama viðtali að hann sé enn reiðubúinn að spila fyrir land og þjóð.