Innlent

Tíu Co­vid-tengd verk­efni hjá slökkvi­liði síðasta sólar­hringinn

Atli Ísleifsson skrifar
Gærdagurinn er sagður með verkefnamestu sunnudögum sem liðsmenn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi séð.
Gærdagurinn er sagður með verkefnamestu sunnudögum sem liðsmenn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi séð. Vísir/Vilhelm

Alls voru tíu svokallaðir Covid-flutningar skráðir hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu síðasta sólarhringinn. Helgin var mjög erilsöm hjá slökkviliðinu, og þá sérstaklega síðastliðinn sólarhringur.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að alls hafi verið farið í 115 boðanir á sjúkrabíla síðasta sólarhringinn og af þeim hafi veirð 35 bráðatilfelli. Covid-tengd verkefni hafi verið tíu.

Rétt er að taka fram að Covid-tengdir sjúkraflutningar eru hvorki ávísun á kórónuveirusmit sjúklingsins sem fluttur er, né innlögn inn á sjúkrahús.

Greint var frá því í gær að starfsmaður á göngudeild lyflækninga á Landspítalanum í Fossvogi, A3, hafi greinst með kórónuveiruna í fyrradag og að um fimmtíu starfsmenn og sjúklingar væru í sóttkví vegna smitsins. Gengið sé út frá því að um breska afbrigði veirunnar sé að ræða. 

Auk starfsmannsins á Landspítalanum hafði einn annar smitast utan sóttkvíar, en talið er að rekja megi smitin til sameiginlegs snertiflatar í stigagangi fjölbýlishúss. Umfangsmikil smitrakning hefur staðið yfir vegna smitanna og nær hún einnig til tónleika í Hörpu á föstudag.

Með verkefnamestu sunnudögum

Í færslu slökkviliðs segir ennfremur að dælubílar hafi verið boðaðir í sex verkefni, þar á meðal útafakstur, vatnslekar, hreinsun á spilliefnum, eldur utandyra og fleira.

„Þetta er með verkefnamestu sunnudögum sem við höfum séð hér hjá SHS og það reyndi mjög mikið á okkar starfsmenn á stundum. Eigið góða vinnuviku sem framundan er,“ segir í færslunni.


Tengdar fréttir

Ekkert sýni jákvætt hingað til

Búið er að skima meirihluta þeirra starfsmanna Landspítalans sem gætu hafa verið útsettir fyrir smiti eftir að starfsmaður á göngudeild lyflækninga A3 greindist með kórónuveirusmit. Hingað til hefur ekkert sýni verið jákvætt.

Gengið út frá því að smit á Landspítala sé breska afbrigðið

Um fimmtíu starfsmenn og sjúklingar eru í sóttkví eftir að starfsmaður á göngudeild lyflækninga A3 Landspítalans í Fossvogi greindist með covid-19 í gær. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans í samtali við Vísi. Málið er litið alvarlegum augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×