Skoðun

Hvar er besta á­vöxtunin í dag?

Björn Berg Gunnarsson skrifar

„Hvar er best fyrir fólk að geyma peningana sína í dag? Með öðrum orðum, hvað hefur hækkað mest undanfarna tólf mánuði?“

Þetta er fyrirspurn sem mér barst fyrir nokkru og ekki í fyrsta sinn sem ég heyri rætt um ávöxtun með þessum hætti. Í spjallhópum á samfélagsmiðlum keppist fólk við að benda á hvar mesta ávöxtun hefur verið að finna að undanförnu og ráðleggur samborgurum sínum að koma sparnaði sínum þar fyrir.

Vissulega er einfalt og fljótlegt að líta á nýlegar ávöxtunartölur og telja sér trú um að sú ávöxtun endurtaki sig í sífellu en slík aðferðarfræði býður hættunni heim. Ýmsar ástæður geta verið fyrir góðri tímabundinni ávöxtun, ekki síst í stórskrítnu árferði eins og því sem við höfum gengið í gegnum undanfarið ár. Til þess að ávöxtun fortíðar endurtaki sig þarf ekki bara að treysta á að sömu aðstæður ríki áfram heldur einnig sambærilegar breytingar á mörkuðum, en hversu líklegt er það?

Skörpustu vaxtalækkanir í manna minnum hafa keyrt stýrivexti hérlendis niður í 0,75%, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á markaði. Mun slíkt endurtaka sig? Veiking krónunnar vegna áhrifa COVID jók ávöxtun erlendra eigna í krónum talið. Eru líkur á álíka veikingu þetta árið? Veikingin jók einnig heildarávöxtun verðtryggðs sparnaðar hérlendis. Mun verðbólga halda áfram að aukast eins og hún gerði í fyrra? Hlutabréfamarkaðir um allan heim hafa rokið upp þrátt fyrir efnahagskreppu, meðal annars vegna mikillar peningaprentunar, neikvæðra raunvaxta og fárra annarra fjárfestingarkosta. Mun slíkt aukast enn frekar í ár?

Captain Hindsight, ofurhetja South Park þáttanna, mætti á slysstaði og fór yfir það sem hefði mátt gera betur til að komast hjá óhappinu. Undir lófaklappi flaug hann svo á brott í leit að nýju ævintýri. Það var þó takmarkað gagn af honum, rétt eins og upplýsingum um ávöxtun í fortíð. Það er góð ástæða fyrir því að ólöglegt er að birta ávöxtunartölur í auglýsingum á Íslandi án þess að taka sérstaklega fram að ávöxtun í fortíð sé ekki vísbending um ávöxtun í framtíð og það er gott að hafa það í huga.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×