Þetta staðfestir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, í samtali við Vísi. Starfsmenn verslunarinnar hafa og munu gangast undir skimun í dag.
Greint var frá því í morgun að starfsmaðurinn sem smitaðist vinni á nóttunni við áfyllingar og hafi verið við störf aðfaranótt laugardags og sunnudags um liðna helgi.
Kom fram í tilkynningu að starfsmaðurinn hafi lítið sem ekkert verið í samskiptum við viðskiptavini, borið grímu við störf sín og farið eftir þeim sóttvarnarreglum sem gilda á vinnustaðnum.
Ráðist var í umfangsmikla sótthreinsun á öllum helstu snertiflötum í versluninni eftir að smitið kom upp.
Starfsemi verslunarinnar hefur haldist óbreytt en Sigurður segir að vel verði fylgst með stöðu mála og brugðist hratt við ef aðstæður breytast.
Tveir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þar á meðal starfsmaður Hagkaups í Garðabæ, en báðir þeir sem greindust voru utan sóttkvíar. Sextán eru nú í einangrun á landinu vegna Covid-19 og 107 í heildina í sóttkví.