Fótbolti

Vill selja áskrift að síðasta korterinu því krakkar hafi ekki einbeitingu til að horfa á heilan leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrea Agnelli er aðalmaðurinn á bak við tjöldin hjá Juventus sem hefur orðið ítalskur meistari níu ár í röð.
Andrea Agnelli er aðalmaðurinn á bak við tjöldin hjá Juventus sem hefur orðið ítalskur meistari níu ár í röð. getty/Daniele Badolato

Andrea Agnelli, forseti Juventus og stjórnarformaður samtaka evrópska félagsliða (ECA), hefur lagt til að byrjað verði að selja áskrift að síðasta stundarfjórðungi fótboltaleikja til að fjölga ungum áhorfendum.

Agnelli segir að ungt fólk í dag hafi ekki einbeitingu til að horfa á heila fótboltaleiki. Það geri aðeins allra harðasta fótboltaáhugafólk.

Hann segir að það væri hægt að ná til fleiri ungmenna með því að selja áskrift að síðustu fimmtán mínútum leikja.

„Við höfum hugsað um áskrift fyrir síðasta korter ákveðinna leikja. Krakkar í dag og viðskiptavinir framtíðarinnar halda ekki athygli eins krakkar gerðu þegar ég var yngri,“ sagði Agnelli eftir ársfund ECA.

„Ef við tökum til dæmis golf, ef það er áhugavert yfirhöfuð eru það bara síðustu sex holurnar á lokahringnum. Þú horfir ekki á allt mótið nema þú sért forfallinn aðdáandi.“

Eftir ársfund ECA sagði Agnelli að verið væri að leggja lokahönd á að áætlun um að fjölga liðum í Meistaradeild Evrópu um fjögur, úr 32 í 36. Þessi breyting á að taka gildi eftir þrjú ár.

Agnelli greindi einnig frá hugmyndum um að félög í Meistaradeildinni mættu ekki kaupa leikmenn frá hverju öðru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×