Erlent

Lýsir yfir neyðar­á­standi á Hawa­ii vegna flóða

Atli Ísleifsson skrifar
Enn hafa ekki borist fréttir af manntjóni vegna hamfaranna.
Enn hafa ekki borist fréttir af manntjóni vegna hamfaranna. AP/Kehaulani Cerizo

Gríðarlegt úrhelli síðustu daga og flóð hafa valdið talsverðri eyðileggingu á eyjum Hawaii og hefur ríkisstjórinn David Ige nú lýst yfir neyðarástandi. Búist er við að úrhellinu sloti ekki fyrr en á föstudag.

Ríkisstjórinn Ige hefur fyrirskipað að hjálpargögnum skuli komið til fólks á þeim svæðum sem hafa orðið verst úti.

Enn hafa ekki borist fréttir af því að fólkhafi látið lífið eða slasast af völdum flóðanna.

Íbúum í Haiku-héraði á eyjunni Maui hefur verið gert að yfirgefa heimili sín eftir að flæddi yfir Kaupakalua-stífluna á mánudag. Fjöldi bygginga og brúa neðan stíflunnar hefur eyðilagst þó að stíflan sjálf hafi enn sem komið er sloppið. 

Aurskriður hafa sömuleiðis víða fallið á vegi og þannig raskað umferð. Slökkvilið hefur þurft að fara í fjölda útkalla vegna fólks sem er innlyksa vegna flóða.

Úrkoma mældist 33 sentimetrar á átta klukkustunda tímavili á norðurströnd Maui á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×