Frá þessu segir á vef Vegagerðarinnar. Búið er að opna veginn um Kjalarnes, en vegurinn um Holtavöruheiði er lokaður og er þar beðið með mokstur.
Á Vesturlandi er víðast hvar hálka, hálkublettir og hvassviðri. Skafrenningur er á fjallvegum og getur orðið blint, en mokstur er þó víðast hvar hafinn.
Á Vestfjörðum er víðast hvar snjóþekja eða hálka og einhver skafrenningur. Unnið er að mokstri milli byggðarlaga á Norðursvæðinu og eins á Ströndum, en ágætis vetrarfæri er á Suðurfjörðum. Dynjandisheiði er lokuð, og vegur um Klettsháls og Steingrímsfjarðarheiði ófær.
Á Norðurlandi er víðast hvar ófært og stórhríð. Þannig er Siglufjarðarvegur, vegur um Ólafsfjarðarmúla og Víkurskarð lokaðir vegna veðurs.
Á Norðausturlandi er víðast hvar þæfingur eða snjóþekja. Þungfært er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og um Dettifossveg.