Örn Arnarsson hjá Hótel Laugarbakka segir í samtali við Vísi að hótelið hafi verið lokað í gær en að bregðast hafi þurfi við í ljósi aðstæðna.
„Þetta var eiginlega bara lyginni líkast. Það var lokað hjá okkur, en við höfum bara opið um helgar í mars. En svo byrjar síminn að hringja og hann hringir nær stöðugt. Svo fara bílar að koma inn á planið hjá okkur, fólk út úr bílunum. Og svo fleiri bílar og fleira fólk, þannig að þetta varð bara eins og vatn sem rann hingað til okkar,“ segir Örn.
Þjóðvegi 1 við afleggjarann að Hvammstanga var lokað í gærkvöldi vegna slæms skyggnis og flutningabíla sem þveruðu veginn.
Kokkurinn rauk í gang
Örn segir hótelstarfsmenn ekki hafa verið tilbúna að taka á móti gestum og það hafa verið tilviljun að það hafi yfir höfuð verið á staðnum. „Það skipti engum togum að tveimur tímum síðar þá er hótelið orðið fullt,“ segir Örn en hann telur að milli 130 og 140 manns séu nú á hótelinu. „Þetta var ótrúlega magnað.“
Örn segir að hótelið hafi boðið gestunum upp á samlokur í gærkvöldi. „Kokkurinn rauk í gang og steikti samlokur, franskar og kokteil, þannig að það fengu allir sína magafylli,“ segir Örn.
„Mjög vel tekið á móti okkur“
Ágúst Karl Karlsson, foreldri fótboltastráks í KR, segir að allir hafi verið mjög fegnir að hafa fengið inni á hótelinu og að móttökurnar hafi verið höfðinglegar. „Það var tekið vel á móti okkur. Gæti ekki verið betra. Þetta er flott hótel og það voru grillaðar samlokur ofan í liðið. Allt upp á tíu.“
Hann segir veðrið nú vera orðið gott á svæðinu og er fólk að bíða eftir að geta haldið förinni áfram norður.
Á vef Vegagerðarinnar segir að þjóðvegurinn við Hvammstangaafleggjara sé enn lokaður þar sem flutningabílar þvera veg og beðið sé með aðgerðir vegna veðurs.