Innlent

Niðurstöður prófkjörs Pírata liggja fyrir í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Prófkjör Pírata fer fram rafrænt en það hófst 3. mars. Því lýkur klukkan 16:00 í dag.
Prófkjör Pírata fer fram rafrænt en það hófst 3. mars. Því lýkur klukkan 16:00 í dag. Vísir/Sigurjón

Prófkjöri Pírata í öllum kjördæmum nema norðurlandskjördæmunum tveimur fyrir Alþingiskosningarnar í haust lýkur nú síðdegis. Flokkurinn fær nýja oddvita í þremur stórum kjördæmum.

Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy, sitjandi þingmenn Pírata bjóða sig ekki fram að þessu sinni og því er ljóst að nýtt fólk verður í brúnni hjá flokknum í Reykjavíkurkjördæmi norður, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi.

Í Reykjavík er sameiginlegt prófkjör fyrir bæði kjördæmi. Endanleg skipting frambjóðenda á milli norður- og suðurkjördæmis eiga að liggja fyrir eftir helgi. Píratar hafa fjögur þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Helgi Hrafn býður sig ekki fram og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir flytur sig yfir í suðvesturkjördæmi í haust. Því verður barist um fjögur efstu sætin.

Á meðal þeirra sem sækjast eftir leiðtogasætunum í Reykjavík eru sitjandi þingmennirnir Björn Leví Gunnarsson og Halldór Mogensen. Þar etur einnig kappi Andrés Ingi Jónsson sem gekk nýlega til liðs við flokkinn. Hann hafði verið óháður þingmaður eftir að hann sagði skilið við Vinstri græna fyrr á kjörtímabilinu.

Kosningunni lýkur klukkan 16:00 í dag og eiga niðurstöður að liggja fyrir á milli klukkan 16:05 og 16:30. Tilkynnt verður um úrslitin í beinu streymi á vefsíðu Pírata. Prófkjör í norðvestur- og norðausturkjördæmum lýkur 20. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×