Körfubolti

Þrjú íslensk stig í þriðja sigri Þórsara í röð: Ingvi óleikfær vegna höfuðhöggs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Ágústsson skoraði einu íslensku körfuna hjá Þórsurum í sigrinum á Haukum í gær en hann setti niður þriggja stiga skot og skoraði því öll þrjú stig íslenskra leikmanna Þórs í leiknum.
Ragnar Ágústsson skoraði einu íslensku körfuna hjá Þórsurum í sigrinum á Haukum í gær en hann setti niður þriggja stiga skot og skoraði því öll þrjú stig íslenskra leikmanna Þórs í leiknum. Vísir/Vilhelm

Erlendir leikmenn Þórsliðsins skoruðu 97 prósent stiga liðsins í sigrinum á Haukum á Ásvöllum í gærkvöldi.

Þórsarar héldu sigurgöngu sinni áfram í Domino´s deild karla í körfubolta í gær með öruggum sigri á botnliði Hauka. Það var hins vegar skortur á framlagi íslenskra leikmanna Þórsliðsins sem var ansi sláandi í þessum leik.

Sigur Þórsarar er vissulega enn athyglisverðari fyrir þá staðreynd að liðið lék án Ingva Þórs Guðmundssonar í leiknum en Ingvi hafði skoraði 22 stig í sigrinum á Stjörnunni á föstudagskvöldið.

Þórsarar segja frá því á heimasíðu sinni að Ingvi hafi fengið þungt höfuðhögg í leiknum gegn Stjörnunni og því var tekin sú ákvörðun að gefa honum frí og tíma til að jafna sig fullkomlega áður en hann hefur leik á ný.

Ingvi Þór skoraði öll íslensku stig Þórsliðsins í sigrinum í Garðabænum og öll íslensku stigin í sigri á Grindavík fyrir norðan í leiknum á undan. Enginn annar íslenskur leikmaður Þórsliðsins hafði skorað í tveimur síðustu leikjum.

Fyrirliðinn Ragnar Ágústsson skoraði því vissulega meira í gær en í þessum tveimur leikjum á undan en stigin hans þrjú voru einu íslensku stigin hjá Þórsurum í leiknum á móti Haukum.

Fimm erlendir leikmenn Þórsliðsins skoruðu 97 af 100 stigum (97%) í leiknum á móti Haukum, tóku 36 af 38 fráköstum (95%, +7 liðsfráköst), gáfu 29 af 30 stoðsendingum (97%) og fengu 126 af 128 framlagsstigum liðsins (98%).

Þetta var annars frábær ferð hjá Þórsurum suður en þeir unnu jafnmarga útileiki á þessum þremur dögum og þeir höfðu unnið á 1158 dögum þar á undan því Þórsliðið tapaði 14 af 16 útileikjum sínum í Domino´s deildinni frá 8. janúar 2018 til 11. mars 2021.

Tölfræði Þórsliðsins í sigrinum á Haumum:

  • Stig
  • Erlendir leikmenn 97
  • Íslenskir leikmenn 3
  • Fráköst
  • Erlendir leikmenn 36
  • Íslenskir leikmenn 2
  • Stoðsendingar
  • Erlendir leikmenn 29
  • Íslenskir leikmenn 1
  • Spilatími (Mínútur:sekúndur)
  • Erlendir leikmenn 178:47
  • Íslenskir leikmenn 21:13
  • Skot á körfuna

  • Erlendir leikmenn 62

  • Íslenskir leikmenn 4

  • Framlag
  • Erlendir leikmenn 126
  • Íslenskir leikmenn 2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×