Frá því jarðskjalftahrinan hófst á Reykjanesi hafa orðið þar næstum fimmtíuþúsund jarðskjálftar. Sex á bilinu fimm til fimm komma sjö, 53 á bilinu fjórir til tæplega fimm og 524 þrír til tæplega fjórir að stærð.

Jón Örvar Bjarnason sérfræðingur í tjóna-og áhættumati hjá Náttúruhamfaratryggingu segir að hús hér á landi standi af sér slíkt álag.
„Það er í undantekningatilfellum að það verða skemmdir á burðavirkjum húsa í skjálftum sem eru undir sex. Á meðan skjálfti er ekki stærri en það getur húsið þolað mjög marga skjálfta. Þó það komi kannski minniháttar sprungur eða örfínar skemmdir þá er það ekki til að hafa áhyggjur af,“ segir Jón Örvar.
Þyrftum marga skjálfta yfir sex til að þurfa að hafa áhyggjur
Aðspurður um hvað þurfi þá til svo það verði mögulegar skemmdir á burðavirkjum húsa svarar Jón.
„Við þyrftum mjög stóra og marga skjálfta til að þurfa að hafa áhyggjur. Það gæti haft þau áhrif að burðarþol húsa myndi smám saman minnka en það er ekki sú atburðarrás sem við erum að horfa uppá núna,“ segir Jón Örvar.
Hann bendir á að ekkert hús hafi til dæmis hrunið í stóru Suðurlandsskjálftunum árin 2000 og 2008.
„Þá varð tjón á burðavirkjum en ekkert hús hrundi hins vegar í þeim atburðum,“ segir hann.
Hann segir að jafnvel þó það yrði skjálfti uppá 6,5 þá yrði hann það fjarri byggð að ólíklegt væri að hann hefði mikil áhrif á burðavirki húsa.
„Flestir byggingar eru mjög langt frá upptökum slíks skjálfta þess vegna við höfum við mjög litlar áhyggjur af því að það yrðu meiriháttar skemmdir á húsnæði, hins vegar gæti orðið minniháttar tjón á mjög mörgum eignum því fjöldi þeirra er svo mikill á svæðinu.
Náttúruhamfaratrygging hefur fengið alls 54 tjónatilkynningar frá því hrinan hófst. Langflestar eru í Reykjavík og Hafnarfirði átta úr Grindavík og ein frá Árborg og Akranesi. Langflestar tilkynningarnar eru minniháttar.
