Fótbolti

Löw óttast um stjörnuleikmenn en áfallið yrði meira fyrir Ísland

Sindri Sverrisson skrifar
Joachim Löw og Arnar Þór Viðarsson mætast í Duisburg 25. mars með landslið sín. Annar er brátt að ljúka þjálfaratíð sinni en hinn að byrja sína.
Joachim Löw og Arnar Þór Viðarsson mætast í Duisburg 25. mars með landslið sín. Annar er brátt að ljúka þjálfaratíð sinni en hinn að byrja sína. Getty/Thomas Böcker

Besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í janúar og febrúar, Ilkay Gündogan, gæti misst af leik Þýskalands við Ísland eftir níu daga líkt og fleiri leikmenn sem spila í Englandi.

Ísland byrjar undankeppni HM í Katar á því að spila við Þýskaland, Armeníu og loks Liechtenstein, dagana 25.-31. mars.

Þýski miðillinn Kicker greinir frá því að Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands, óttist að verða án fimm leikmanna vegna sóttvarnareglna í Þýskalandi. Samkvæmt núgildandi reglum í Þýskalandi má fólk ekki koma frá Bretlandi til Þýskalands án þess að fara í sóttkví, vegna breska afbrigðis kórónuveirunnar.

Að óbreyttu munu því Gündogan, Timo Wener, Kai Havertz, Bernd Leno og Antonio Rüdiger missa af heimaleikjum Þýskalands við Ísland og Norður-Makedóníu. Löw segir við Kicker að það sé svo ekki sérlega góð hugmynd að leikmennirnir fimm mæti aðeins í útileikinn við Rúmeníu.

Ísland yrði án lykilleikmanna

Núgildandi sóttvarnareglur í Þýskalandi hafa sömuleiðis í för með sér að Ísland verði án fjögurra leikmanna gegn Þýskalandi. Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Jón Daði Böðvarsson spila allir á Englandi. Ljóst er að Þýskaland hefur úr talsvert fleiri leikmönnum úr landsliðsklassa að velja en Ísland.

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari sagði við Vísi í síðustu viku að það væri einfaldlega óvíst hvort þeir yrðu með gegn Þýskalandi.

Samkvæmt frétt Kicker skoðaði þýska knattspyrnusambandið þann möguleika að færa heimaleiki sína í annað land, líkt og gert hefur verið í Evrópukeppnum félagsliða, en ákvað að fara ekki þá leið. Leikirnir við Ísland og Norður-Makedóníu verði því í Duisburg.

Arnar Þór tilkynnir landsliðshóp sinn á morgun en Löw bíður fram á föstudag með að tilkynna sinn hóp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×