Innlent

Átta þúsund við­bótar­skammtar væntan­legir frá Pfizer

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pfizer-bólusetning í fullum gangi í Laugardalshöll um daginn.
Pfizer-bólusetning í fullum gangi í Laugardalshöll um daginn. Vísir/Vilhelm

Ísland fær átta þúsund viðbótarskammta af bóluefni lyfjaframleiðandans Pfizer á öðrum ársfjórðungi frá því sem áður var gert ráð fyrir, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu. 

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá viðbótarskömmtunum í morgun. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði frá því á Twitter í gær að Evrópusambandið hefði samið við Pfizer um að flýta afhendingu á tíu milljón skömmtum á öðrum ársfjórðungi. 200 milljónir skammta verði þannig afhentir á fjórðungnum.

Áðurnefndir átta þúsund viðbótarskammtar sem samkomulagið færir Íslendingum duga fyrir fjögur þúsund manns. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum fær Ísland þannig 166 þúsund Pfizer-skammta á öðrum ársfjórðungi, þ.e. apríl til júní, sem duga fyrir 83 þúsund manns. Afhendingaráætlun liggur ekki fyrir.

Alls mun Ísland fá um 56 þúsund Pfizer-skammta á fyrsta ársfjórðungi en innifalið í þeirri tölu eru 3.500 viðbótarskammtar sem fást í mars. Þá komu tíu þúsund Pfizer-skammtar til landsins í desember. Ísland hefur í heildina samið um kaup á 410 þúsund Pfizer-skömmtum, sem duga fyrir um 205 þúsund manns.

Þá er enn beðið eftir afhendingaráætlun frá Janssen en gert er ráð fyrir að fyrirtækið byrji að afhenda bóluefni sitt um miðjan apríl. Alls hafa tæplega 13 þúsund manns verið fullbólusettir gegn kórónuveirunni hér á landi, samkvæmt tölum á Covid.is í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×