Eyjamenn hafa ekki tapað deildarleik á Hlíðarenda síðan 15. desember 2016 eða í fjögur ár og þrjá mánuði.
Eyjamenn hafa tekið með sér sjö af átta stigum úr síðustu fjórum heimsóknum sínum á Hlíðarenda í Olís deildinni. Það þýðir að 88 prósent stiga í boði hafa farið með til Eyja.
Síðasti deildarsigur Vals á ÍBV á Hlíðarenda var fyrir 1553 dögum en Valsmenn unnu leik liðanna í úrslitakeppninni í þessu húsi vorið 2017 en sá leikur fór fram 12. apríl 2017.
Það hefur reyndar ekki munað miklu á liðunum í þessum leikjum enda hafa Eyjamenn tvisvar unnið með einu marki og stærsti sigurinn er þriggja marka sigur ÍBV liðsins í mars 2019.
Á móti hefur Valsmönnum gengið miklu betur með ÍBV liðið út í Eyjum þar sem Valsmenn hafa fagnað sigri þrisvar sinnum síðan þeir unnu ÍBV liðið síðast á heimavelli.
Þetta verður annar leikur liðanna á þessu tímabili en ÍBV vann fyrri leikinn með fjögurra marka mun 26. september í fyrra eða 28-14 eftir að hafa verið 18-10 yfir hálfleik. Síðan eru liðnir 172 dagar og mikið hefur gerst síðan þá.
Leikur Vals og ÍBV verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 17.50.
Síðustu deildarleikir Vals og ÍBV á Hlíðarenda:
- 30. september 2019: ÍBV vann með 1 marki (26-25)
- 18. mars 2019: ÍBV vann með 3 mörkum (32-29)
- 15. október 2017: Jafntefli (31-31)
- 4. apríl 2017: ÍBV vann með 1 marki (30-29)
Stig félaganna í þessum fjórum síðustu leikjum á Hlíðarenda:
- ÍBV 7 stig
- Valur 1 stig

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.