Innlent

Öflugustu sprengjuþotur Bandaríkjahers æfðu undan ströndum Íslands í fyrrinótt

Kristján Már Unnarsson skrifar
B-2 Spirit-sprengjuþota að leggja upp í flug frá Lajes-herflugvellinum á Azoreyjum í fyrradag. 
B-2 Spirit-sprengjuþota að leggja upp í flug frá Lajes-herflugvellinum á Azoreyjum í fyrradag.  U.S. Air Force/Heather Salazar

Tvær B-2 Spirit-herþotur og tvær B-1B Lancers-herþotur voru látnar hittast undan ströndum Íslands í fyrrinótt í æfingaflugi, sem Bandaríkjaher segir að hafi verið til að undirstrika þá miklu áherslu sem flugherinn leggi á norðurslóðir. Önnur tegundin er hljóðfrá, hin torséð og getur borið kjarnorkuvopn, og eru þær taldar skæðustu sprengjuþotur NATO-herja.

„Sprengjuþoturnar flugu í löngu samflugi um norðurslóðir, mættust undan ströndum Íslands um nóttina til að betrumbæta þá hæfni í næturflugi sem nauðsynleg er til að starfa í þessu umhverfi,“ segir á fréttasíðu bandaríska flughersins.

B-1 sprengjuþoturnar flugu frá Ørland-herflugvellinum í Þrændalögum í Noregi.Norski flugherinn

„Verkefnið er mikilvægt til að viðhalda sterkri stöðu okkar á heimsvísu,“ er haft eftir Steven L. Basham aðstoðarherforingja í tilkynningu hersins. „Ekki er hægt að gera of mikið úr mikilvægi þess að veita flugmönnum okkar tækifæri til að þjálfa í einstöku umhverfi."

B-2 þoturnar voru fyrr um daginn sendar til hinna portúgölsku Azoreyja sunnar í Atlantshafi þar sem tekið var eldsneyti og skipt um áhafnir áður en haldið var í loftið á ný. 

Þrjár B-2 Spirit torséðar sprengjuþotur lentu á Azoreyjum í fyrradag.U.S. Air Force/Heather Salazar

B-1 sprengjuþoturnar flugu frá Ørland-herflugvellinum norðvestan Þrándheims í Noregi þar sem þær hafa verið við æfingar undanfarinn mánuð.

„Að staðsetja sprengjuflugvélarnar í Noregi og fljúga þeim á öðrum svæðum á norðurslóðum sýnir ásetning flughersins um virkt eftirlit þar og sendir bæði bandamönnum og hugsanlegum andstæðingum eins og Rússlandi skilaboð um að svæðið sé í forgangi,“ segir í frétt flughersins.

Mikla athygli vakti sumarið 2019 þegar hin torséða B-2 sprengjuþota lenti á Keflavíkurflugvelli til að æfa eldsneytistöku með hreyfla í gangi. Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá komu hennar:

Myndband bandaríska flughersins frá komu B-2 til Azoreyja í fyrradag má sjá hér. Þaðan flugu þoturnar áleiðis til Íslands:

Athugasemd: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að báðar tegundirnar væru hljóðfráar. Hið rétta er að B-1 er hljóðfrá en ekki hin torséða B-2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×