Erlent

The Sun réði einka­spæjara til að fá upp­lýsingar um Meg­han

Sylvía Hall skrifar
Götublaðið The Sun fékk persónulegar upplýsingar um Markle þegar hún var nýbyrjuð að hitta Harry Bretaprins. 
Götublaðið The Sun fékk persónulegar upplýsingar um Markle þegar hún var nýbyrjuð að hitta Harry Bretaprins.  Vísir/Getty

Breska götublaðið The Sun borgaði bandaríska einkaspæjaranum Daniel Hanks fyrir að sækja upplýsingar um Meghan Markle, hertogaynjuna af Sussex, á fyrstu stigum sambands hennar við Harry Bretaprins. Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið í kvöld.

Á meðal þeirra upplýsinga sem Hanks nálgaðist fyrir götublaðið var kennitala Markle, símanúmer og heimilisfang sem og upplýsingar um fyrrverandi eiginmann hennar, fjölskyldumeðlimi og fyrrum kærasta. Í Bandaríkjunum geta rannsóknarmenn, líkt og Hanks er, nálgast ákveðnar upplýsingar úr gagnagrunnum í sérgreindum tilgangi, til að mynda fyrir dómsmál, en óheimilt er að sækja slíkar persónuupplýsingar fyrir fjölmiðla.

Útgefandi The Sun segir blaðið einungis hafa óskað eftir lögmætri rannsókn og það hafi jafnframt beðið Hanks um að haga sér í samræmi við lög. Hanks segir nær allar upplýsingarnar hafa verið fengnar með lögmætum hætti fyrir utan kennitöluna. „Þegar þú hefur þær upplýsingar, þá ertu með lykilinn að konungsveldinu,“ bætti hann við.

Hanks hefur starfað sem einkaspæjari í næstum því fjörutíu ár og á ferli sínum safnað upplýsingar um menn á borð við Michael Jackson og Jeffrey Epstein. Hann hefur verið dæmdur til fangelsisvistar fjórum sinnum, síðast árið 2017 fyrir fjárkúgun.

Í viðtali Opruh Winfrey við hertogahjónin af Sussex ræddu þau sérstaklega breska fjölmiðla, sem þau sögðu hafa verið óvægna í garð Meghan Markle. Margar umfjallanir hafi litast af kynþáttafordómum og hún hafi upplifað mikla ósanngirni í sinn garð. Þá greindi hún einnig frá andlegum erfiðleikum sínum í viðtalinu og þeirri staðreynd að hún hafi um tíma íhugað sjálfsvíg.


Tengdar fréttir

Brotist inn til Hinriks og Markle í tvígang

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið kærður fyrir að brjótast inn í setur Hinriks Bretaprins og Meghan Markle, eiginkonu hans, í Kaliforníu yfir jólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×