Innlent

Íslendingar önnur hamingjusamasta þjóð heims

Samúel Karl Ólason skrifar
Íslendingar færast úr fjórða sæti í annað á lista yfir hamingjusömustu þjóðir heims.
Íslendingar færast úr fjórða sæti í annað á lista yfir hamingjusömustu þjóðir heims. Vísir/Vilhelm

Íslendingar eru önnur hamingjusamasta þjóð heimsins, á eftir Finnum. Það er samkvæmt World Happiness Report en þetta er fjórða árið í röð sem Finnar sitja á toppi listans en Ísland var í fjórða sæti í fyrra.

Danmörk er í þriðja sæti, Sviss í því fjórða og Holland í fimmta. Þar á eftir komu Svíþjóð, Þýskaland, Noregur, Nýja-Sjáland og Austurríki.

Stærstu breytingarnar í efstu sætum listans á milli ára er að Ísland stökkvi upp um tvö sæti og Noregur falli úr því fimmta í áttunda. Þá stekkur Þýskaland upp um tíu sæti. Úr því sautjánda í sjöunda.

Hér má sjá lista yfir fimmtán hamingjusömustu þjóðir heims.

Þetta er í níunda sinn sem hamingjuskýrslan svokallaða er gefin út en hún byggir á hinum ýmsu gögnum en hvað stærstan hluta spilar Heimskönnun Gallup. Vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar gátu höfundar hennar ekki tekið viðtöl við fólk, eins og þeir hafa gert áður.

Skýrslan tekur að mestu mið af landsframleiðslu, lífslíkum, gjafmildi, samfélagsstuðningi, frelsi og spillingu.

Í tilkynningu frá Sustainable Development Solutions Network, sem gera heimshamingjuskýrsluna á ári hverju, var heilt yfir ekki lækkun á því hvernig fólk mat gæði eigin lífs á síðasta ári. Ein möguleg útskýring er að fólk hafi litið á faraldurinn sem sameiginlega ógn gegn öllum. Það hafi stappað stáli í fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×