Eftir að Einar Sverrisson minnkaði muninn fyrir Selfoss í 19-18 var Sigursteini nóg boðið og tók leikhlé, enda Selfyssingar búnir að skora þrjú mörk í röð.
Sigursteinn byrjaði á að fara yfir taktík með sínum mönnum. Honum fannst Ágúst greinilega ekki fylgjast nógu vel með, bankaði aðeins í línumanninn og spurði hvort hann væri þarna.
Ágúst svaraði Sigursteini fullum hálsi og sagðist vera á staðnum. „Já, ég er hérna,“ sagði Ágúst og sannaði það svo í fyrstu vörn FH eftir leikhléið þar sem hann vann boltann. Í kjölfarið fékk FH vítakast sem Einar Rafn Eiðsson skoraði úr og Selfyssingurinn Hergeir Grímsson var einnig rekinn af velli.
Leikhléið skemmtilega hjá FH má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
FH var með forskotið það sem eftir lifði leiks og vann góðan sigur, 28-27. FH-ingar eru í 2. sæti Olís-deildarinnar með 21 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Hauka.
Ágúst skoraði tvö mörk í leiknum í gær. Hann gekk einnig vasklega fram í vörninni og fékk þrjár tveggja mínútna brottvísanir.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.