Þar segir að ætluð brot mannsins hafi verið framin á rúmlega þriggja og hálfs mánaða tímabili, eða frá því í lok nóvember á síðasta ári og fram í miðjan mars á þessu ári. Þá hefur viðkomandi stöðu sakbornings í sex öðrum málum, sem eru til meðferðar hjá lögreglu.
Um er að ræða karlmann sem meðal annars er grunaður um að hafa unnið mikil skemmdarverk á bíl Svölu Lindar Ægisdóttur, móður í Laugardalnum í Reykjavík, í síðustu viku. Svala Lind lýsti því í viðtali í Bítinu á Bylgjunni hvernig hún og sonur hennar hefðu sætt hótunum frá manninum síðan í nóvember.
Hún segir martröðina hafa hafist fyrir tæpum fjórum mánuðum, þann 23. nóvember, þegar sonur hennar hafi verið frelsissviptur og beittur ofbeldi. Síðan þá hafi þau orðið fyrir stöðugu áreiti.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði fram kröfu í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn fimmtudag um gæsluvarðhald yfir manninum, en henni var hafnað. Sá úrskurður var kærður til Landsréttar, sem hefur nú snúið honum við.