Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Austurlandi. Þar segir að Norræna komi til Seyðisfjarðar í fyrramálið með 77 farþega.
Smituðu farþegarnir höfðu báðir framvísað neikvæðu PCR-prófi sem uppfyllti skilyrði og var nýrra en 72 klukkustunda gamalt. Þeir hafa síðan verið í einangrun um borð og ekki er því talið að aðrir farþegar hafi orðið útsettir fyrir smiti.
Farþegar Norrænu fara sem fyrr í sýnatöku við komu til landsins, þá í sóttkví í fimm daga og svo í sýnatöku að nýju.
„Hinir tveir smituðu verða áfram í einangrun eftir komu og undir eftirliti sóttvarnaryfirvalda sem kannar meðal annars hvort mögulega sé um gamalt smit að ræða. Hvorugur hinna smituðu sýnir einkenni COVID smits,“ segir í tilkynningu.