Innlent

Vel varinn í kringum fárveikan skipstjórann en nú kominn í sóttkví

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Súrálsskipið lagðist að bryggju á Reyðarfirði síðdegis á laugardag.
Súrálsskipið lagðist að bryggju á Reyðarfirði síðdegis á laugardag. Vísir/Vilhelm

Yfirhafnsögumaður á Reyðarfirði, sem fara þurfti um borð í súrálsskip með veika skipverja innanborðs á laugardag, segir að honum hafi verið illa við að fara um borð. Þá segir hann að ekki hafi fengist upplýsingar um veikindi skipverjanna nema með krókaleiðum. 

Þegar súrálsflutningaskipið Taurus Confidence lagðist að bryggju á Reyðarfirði á laugardag voru sjö af 19 manna áhöfn með einkenni Covid-19. Sýnataka leiddi í ljós að tíu voru smitaðir. Skipið kemur frá Brasilíu og flytur súrál frá Suður-Ameríku til Evrópu. Sóttvarnalæknir telur að skipverjarnir séu smitaðir af hinu svokallaða brasilíska afbrigði kórónuveirunnar en raðgreining mun ekki liggja fyrir fyrr en á morgun.

Fengu upplýsingar um veikindin með krókaleiðum

Hafþór Eide Hansson yfirhafnsögumaður á Reyðarfirði fór um borð í skipið síðdegis á laugardag, líkt og skylt er samkvæmt lögum. Hann segir í samtali við Vísi að hann hafi verið um borð í skipinu í um tvo og hálfan tíma. Þá hafi það ekki komið í ljós nema gegnum krókaleiðir að áhöfn skipsins væri veik, líkt og Mbl greindi frá fyrr í kvöld.

„Þetta var bara tilkynnt til Landhelgisgæslu milli ellefu og tólf þarna um hádegi að væru veikindi um borð í skipinu. Þetta kom eftir einhverjum krókaleiðum sem er náttúrulega alveg forkastanlegt,“ segir Hafþór.

„Umboðsmaður Nesskips þefaði þetta upp og sendi þá strax tölvupóst til Landhelgisgæslunnar sem hringir í okkur fyrir austan til að upplýsa okkur um stöðu mála um borð í skipinu. Það má alveg segja það að hafi munað mjóu. Þetta hefði átt að liggja fyrir bara þegar skipið kemur inn í 200 mílurnar, og raunar fyrr, vegna þess að þeir eru fjórtán, fimmtán daga að sigla frá Brasilíu og til Reyðarfjarðar og á fimmta degi fara þeir að finna fyrir einkennum. Þannig að þetta var ansi skrýtið.“

Skipstjórinn fárveikur

Hafþór gerði allar mögulegar sóttvarnaráðstafanir áður en hann steig um borð. Hann klæddi sig í sóttvarnagalla frá slökkviliðinu á Reyðarfirði og setti á sig grímu, skerm og hanska – en tekur fram að hann sé óbólusettur.

„Ég reyndi að verja mig mjög vel áður en ég fór upp í brúna.“ Þá hafi hann reynt að halda sig eins fjarri áhöfninni og hann gat.

„Þegar ég kem upp í brú eru þar þrír menn. Skipstjórinn situr þarna í stól þarna í miðjunni og er að mínu mati fárveikur. Hann skipti sér ekkert af stjórn skipsins. Svo var þarna stýrimaður og annar maður sem var að stýra skipinu, þannig að ég reyndi að halda mér í sem mestri fjarlægð frá þeim og svo stjórna ég algjörlega aðgerðum til að koma skipinu að bryggju, öðruvísi hefði skipið ekki komist að bryggju nema með minni hjálp og dráttarbáts.“

Varð bylt við þegar Covid-greiningin var staðfest

Hafþór fékk svo að vita það snemma í gærkvöldi að tíu skipverjar hefðu greinst með Covid.

„Mér varð náttúrulega bylt við vegna þess að ég vildi helst ekki fara um borð í þetta skip, fyrst það voru þarna sex, átta menn veikir að koma frá Brasilíu. En ég passaði mig reyndar rosalega vel að koma ekkert nálægt þessum þremur mönnum sem þar voru, og sérstaklega skipstjóranum sem var mjög lasinn.“

Hafþór er nú komin í sóttkví og verður næstu daga. Hann verður ekki boðaður í skimun fyrr en í lok vikunnar.

„Ég bíð bara rólegur þangað til. En það er allavega mín skoðun að það eigi ekkert að vera að senda menn um borð í þessi skip sem er ekki búið að bólusetja.“


Tengdar fréttir

Ný af­brigði á­hyggju­efni fyrir sam­fé­lagið

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalann, segir álagið á spítalann hafa aukist upp á síðkastið. Til skoðunar er hvort hækka eigi viðbúnaðarstig spítalans úr óvissustigi yfir á hættustig en ný afbrigði veirunnar munu ekki hafa áhrif á verklag á spítalanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×