Fréttastofu hafa borist nokkrar ábendingar í kvöld um að rauður bjarminn af gosinu, og mökkurinn sem stígur upp frá því, sjáist vel frá höfuðborgarsvæðinu, einkum Hafnarfirði. Gosið hafi raunar ekki sést svo vel frá því að það hófst 19. mars.
„Það hefur verið rosalega þungskýjað, slæmt skyggni og slæmt veður þannig að við höfum ekki séð þetta fyrr en núna,“ segir Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi. Þá segir hún þetta jafnframt í fyrsta sinn sem þau á Veðurstofunni sjái í gosið frá Bústaðaveginum.
Ekki séu merki um að gefið hafi í gosið frá því til dæmis í dag, hraunflæði sé svipað. Þá minnir hún á að birtan blekki en rauðglóandi hraunið sést mun betur þegar dimmir.
„Mér finnst þetta mjög svipað því sem var í gærkvöldi og fyrrakvöld. Það er kannski eins og hafi aðeins aukist í öðrum minni gígnum en heldur minnkað í stærsta gígnum,“ segir Sigþrúður. Þá geti verið að tveir minni gígarnir hafi sameinast í einn gíg og meira hraun flæði nú þaðan. Ef til vill fáist úr því skorið á morgun.
Líkt og áður segir sést gosið vel frá höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Svo virðist sem höfuðborgarbúar séu margir að berja bjarmann augum í fyrsta sinn frá heimilum sínum. Indriði Einar Reynisson læknir sér gosið til að mynda frá svölum Landspítalans.
Gossvæðið var rýmt síðdegis í dag vegna hættu á gasmengun. Sigþrúður segir að miðað við tölur á Loftgæði.is ættu höfuðborgarbúar ekki að hafa áhyggjur af loftgæðum vegna gossins í kvöld.
Þá verður metið í fyrramálið hvenær, og hvort, svæðið við gosstöðvarnar verði opnað almenningi á ný en mikil örtröð var á svæðinu í dag.
Fleiri myndir af gosinu, teknar á höfuðborgarsvæðinu í kvöld, má sjá hér fyrir neðan.
Fréttin hefur verið uppfærð.