Fótbolti

Jóhann Berg tæpur fyrir Þýskalandsleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ljóst er að Jóhann Berg Guðmundsson spilar ekki alla þrjá leikina í þessum landsleikjaglugga.
Ljóst er að Jóhann Berg Guðmundsson spilar ekki alla þrjá leikina í þessum landsleikjaglugga. vísir/hulda margrét

Ekki liggur fyrir hvort Jóhann Berg Guðmundsson geti spilað með íslenska landsliðinu gegn því þýska í undankeppni HM 2022 annað kvöld.

„Akkúrat núna eru allir á blaði fyrir leikinn á morgun. Við erum með tuttugu útispilara og þrjá markverði. Flestir eru með grænt sem þýðir að akkúrat núna eru þeir leikfærir,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í Düsseldorf í Þýskalandi í dag.

Jóhann Berg hefur ekki tekið fullan þátt í æfingum íslenska liðsins í Þýskalandi en látið verður reyna á hann á æfingunni í dag.

„Einhverjir verða með á æfingu í dag í fyrsta á aðeins hærra tempói. Jói er þar á meðal. Við æfum meira í dag og svo skoðum við stöðuna með læknateyminu eftir æfinguna. En planið núan er að allir 23 leikmennirnir séu leikfærir á morgun,“ sagði Arnar Þór.

Hann sagði þó ljóst að Jóhann Berg myndi ekki spila alla þrjá leikina í þessari landsleikjahrinu.

„Við erum ekki að fara að nota Jóa í þremur leikjum í þessum glugga og hann er ekki sá eini. Það er mjög mikilvægt fyrir öll landslið að stýra álaginu mjög vel og gera sér grein fyrir því hvaða leikmenn geta spilað margar mínútur á þessum stutta tíma. En hvort Jói spilar eitthvað á morgun vil ég ekki gefa það út en ég vona að sjálfsögðu að við getum notað Jóa,“ sagði Arnar Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×