Búist er við að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti tillögur um hertar útflutningstakmarkanir á bóluefni gegn kórónuveirunni í dag. Aðgerðunum er sagt ætlað að tryggja að útflutningur á bóluefni sem er framleitt í aðildarríkjunum tefji ekki enn afhendingu á því innan álfunnar.
Með reglunum fengju ríki heimild til þess að stöðva útflutning til landa þar sem bólusetning gegn veirunni er lengra á veg komin eða landa sem leyfa ekki útflutning á bóluefni sem er framleitt þar. Þær eru sagðar beinast sérstaklega að Bretlandi og Bandaríkjunum.
Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að það reyni nú að afla sér upplýsinga um fyrirhugaðar reglur ESB. Það hafi þó ekki fengið neinar upplýsingar sem gefi tilefni til að ætla að reglurnar hefðu áhrif á afhendingu bóluefna til Íslands.
Evrópusambandið hefur átt í deilum við bresk stjórnvöld vegna bóluefnis AstraZeneca. Það sakar bresk-sænska lyfjafyrirtækið um að standa ekki við gerða samninga um afhendingu bóluefnis og er ósátt við að það fái ekkert af því bóluefni sem sé framleitt í Bretlandi. Á sama tíma hafi Bretland fengið um ellefu milljónir skammta af þeim 45 milljónum sem hafa verið fluttir út frá aðildarríkjum þess.