Um þessi einkenni má lesa hér.
Í dag segir Ingrid okkur hins vegar frá helstu niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem sýna að langvarandi myndspjall getur leitt til rafrænnar þreytu.
„Ef hugsunin um enn einn fjarfund á Teams eða Zoom tæmir orkubrunninn kemur það ekki á óvart. Vísindamenn á Stanford Virtual Human Interaction Lab komust að því í rannsóknum sínum að langvarandi myndspjall getur leitt til rafrænnar þreytu,“ segir Ingrid en hún er jafnframt með meistaragráðu í jákvæðri sálfræði.
Í tímaritinu Technology, Mind and Behavior birtu vísindamennirnir helstu niðurstöður og gáfu góð ráð. Þar má sjá að það eru helst fjórar ástæður sem skýra það út hvers vegna fjarfundir geta gert fólk örmagna. Samhliða gáfu þeir góð ráð til að takast
1. Of mikið og náið augnsamband
Á fjarfundum eru augu þín límd við skjáinn á meðan mörg andlit í nærmynd stara stöðugt á þig, sama hver hafi orðið. Þetta getur ekki aðeins vakið tilfinningar um félagsfælni heldur býður einnig upp á fá tækifæri til að hvíla augun.
Gott ráð:
Hægt er að leysa þetta með því að stilla ekki á fullan skjá (e. full screen) eða styðjast við ytra lyklaborð til að skapa smá fjarlægð milli þín og skjásins.
2. Að sjá sjálfan sig í speglinum
Flest samskiptaforrit hafa lítinn glugga þar sem maður getur séð sjálfan sig meðan á fundinum stendur. Þessi óeðlilega tilfinning að stara á sjálfan sig marga klukkutíma á dag getur leitt til aukinnar sjálfsgagnrýni.
Gott ráð:
Möguleg lausn á þessu er að fela sjálfsmyndina (e.hide self-view).
3. Minni hreyfanleiki
Fjarfundir binda okkur við einn stað og koma í veg fyrir að við getum hreyft okkur frjálslega.
Gott ráð:
Hægt er að leysa það með því að staðsetja myndavélina á þann hátt að skapa smá fjarlægð og sveigjanleika til að bæta hreyfanleika. Prófaðu sem dæmi að standa frekar en að sitja við skrifborð.
4. Skortur á félagslegum vísbendingum
Við treystum mikið á óyrtri tjáningu, svo sem tjáskipti án orða, í persónulegum samskiptum við annað fólk, jafnvel meira en á tjáskipti með orðum.
Þegar skortur er á óytri tjáningu, eins og er tilfellið á fjarfundum, þarf heilinn að vinna enn betur til að vinna úr og skilja það sem viðmælandi er að reyna að koma á framfæri. Þetta getur skapað andlega þreytu.
Gott ráð:
Að leyfa fólki að velja hvort það hafi kveikt á myndavélinni eða hljóðinu, til dæmis meðan á fyrirlestri stendur, getur veitt því nauðsynlega hvíld. Einnig getur verið gott að snúa líkamanum frá skjánum þegar slökkt er á myndavélinni.