„Ég fékk þær fréttir í morgun að öll fermingarbörn ársins með tölu væru komin í sóttkví. Það var í raun sjálfhætt við þessar fermingar sem hefðu átt að vera á sunnudaginn. Við sitjum þetta af okkur og bíðum með að taka ákvörðun um það í samráði við fjölskyldur fermingarbarna hvernig við höfum það,“ sagði Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Möguleiki að fjölga fermingarathöfnum
Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sendi í dag bréf vegna hertra sóttvarnaaðgerða. Þar kemur fram að þar sem aðeins þrjátíu megi koma saman í helgiathöfnum sé tilhögun ferminga í uppnámi. Hún hvetji presta að ákveða með fermingarbörnum og fjölskyldum þeirra hvort af fermingum verði á næstu þremur vikum eða hvort þeim verði frestað.
„Mögulegt er að fjölga athöfnum þannig að færri verði viðstaddir í einu, en börnin verði fermd,“ segir í bréfinu.
„Í fyrra gerðum við það þannig að við fermdum tvö börn í einu við fleiri og styttri athafnir. Við erum opin fyrir því að grípa til þess ráðs ef það verður nauðsynlegt en næsta fermingarathöfn hjá okkur er áætluð á sumardaginn fyrsta,“ segir Davíð Þór.
„Við ætlum bara að bíða með að taka ákvarðanir um það þangað til það liggur fyrir hvaða sóttvarnareglur verða í gildi þá, þessar sem taka gildi á morgun gilda til 14. apríl þannig að við bara krossum fingur og biðjum almættið að vera með okkur.“