Fótbolti

Zlatan: Mér leið eins og þetta væri fyrsti landsleikurinn minn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic og félagar í sænska landsliðinu fagna sigurmarkinu í gær.
Zlatan Ibrahimovic og félagar í sænska landsliðinu fagna sigurmarkinu í gær. EPA-EFE/Janerik Henriksson

Zlatan Ibrahimovic lék í gærkvöldi sinn fyrsta landsleik í næstum því fimm ár þegar Svíar unnu Georgíu í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2022.

Zlatan minnti á sig með því að leggja upp mark fyrir Viktor Claesson rétt fyrir hálfleik. Markið var eina mark leiksins og tryggði Svíum því þrjú stig.

Zlatan Ibrahimovic var þarna að spila sinn 117. landsleik en þann 116. spilaði hann 22. júní 2016 í lokaleik Svía á EM í Frakklandi. Hann ákvað að gefa aftur kost á sér núna en kappinn hefur verið að gera flotta hluti með AC Milan á Ítalíu á þessu tímabili.

Zlatan setti líka met með því að spila þennan leik í gærkvöldi en hann er nú elsti landsliðsmaður Svía í sögunni. Zlatan var 39 ára, 5 mánaða og 22 daga í gær og bætti hann met markvarðarins Thomas Ravelli sem var 38 ára og 59 daga gamall þegar hann spilaði sinn síðasta landsleik árið 1997.

„Mér leið vel. Mér leið eins og þetta væri fyrsti landsleikurinn minn. Það var mikið adrenalín í gangi,“ sagði Zlatan Ibrahimovic við Sverige Radio eftir leikinn. BBC segir frá.

„Ég held að ég hafi getað gert miklu meira en við unnum leikinn og það var það sem skipti mestu máli,“ sagði Zlatan.

Zlatan Ibrahimovic er kominn með 62 mörk fyrir sænska landsliðið og hefur skorað þrettán mörkum meira en næsti maður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×