„Stemmningin er til staðar. Og þú þarft ekki að vinna í loðnunni til að finna hana. Hún smitar út í allt,“ segir Norðfirðingurinn Smári Geirsson um stemmninguna sem fylgir loðnuvertíð á Austfjörðum.

Íris og Smári eru meðal viðmælenda þáttarins Um land allt á Stöð 2 en þar kynnumst við lífinu á loðnuvertíð. Farið er á loðnuveiðar með skipverjum á Beiti frá Neskaupstað.
„Það er bara fundin torfa og kastað,“ segir skipstjórinn Sturla Þórðarson.

Fylgst er með vinnslu í landi, bæði í Vestmannaeyjum og á Norðfirði. Fjallað er um áhrif loðnunnar í Vestmannaeyjum, stærsta loðnubænum, og á Austfjörðum, þeim landshluta sem mest á undir loðnu.

„Þetta er ævintýri,“ segir Binni í Vinnslustöðinni, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Eyjum.
„Ég hef oft sagt að loðna er svona meira fyrir spennufíkla en margt annað,“ segir Gunnþór Ingvason í Síldarvinnslunni í Neskaupstað.

„Það kemur ekkert í staðinn fyrir loðnuna. Það brosa allir mjög breitt í dag,“ segir Íris daginn sem fyrstu loðnunni er landað í Eyjum í þrjú ár.

„Í Fjarðabyggð brosir fólk bara alltaf breitt allan ársins hring,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, þegar velheppnaðri vertíð er að ljúka.
Þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19:10 í kvöld, mánudagskvöld. Hér má sjá sýnishorn: