Fótbolti

Landsliðið tapað sjö leikjum í röð með markatölunni 3-18

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ari Freyr Skúlason í leiknum gegn Armeníu í Jerevan í gær.
Ari Freyr Skúlason í leiknum gegn Armeníu í Jerevan í gær. epa/VAHRAM BAGHDASARYAN

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefur tapað síðustu sjö leikjum sínum með markatölunni 3-18.

Ísland tapaði 2-0 fyrir Armeníu í öðrum leik sínum í undankeppni HM 2022 í gær og er komið í þrönga stöðu í J-riðli undankeppninnar.

Illa hefur gengið hjá íslenska liðinu að undanförnu og það hefur tapað níu af síðustu tíu leikjum sínum, þar af sjö í röð.

Eini sigurinn kom gegn Rúmeníu, 2-1, í undanúrslitum umspils um sæti á EM 2020 8. október í fyrra. Fyrir utan það hafa allir leikir frá því í september á síðasta ári tapast með markatölunni 4-24.

Englendingar unnu Íslendinga tvisvar í Þjóðadeildinni á síðasta ári.vísir/hulda margrét

Ísland tapaði öllum sex leikjum sínum í Þjóðadeildinni í fyrra auk tapsins grátlega fyrir Ungverjalandi í úrslitum umspils um sæti á EM 2020.

Íslendingar hafa svo tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppni HM og ekki enn skorað mark.

Ísland mætir Liechtenstein í Vaduz í þriðja leik sínum í undankeppni HM á miðvikudaginn. Íslendingar verða að vinna þann leik ef þeir ætla að eiga einhverja möguleika á að komast á HM í Katar á næsta ári.

Síðustu tíu leikir Íslands

  • Ísland 0-1 England, Þjóðadeildin 5. september 2020
  • Belgía 5-1 Ísland, Þjóðadeildin 8. september 2020
  • Ísland 2-1 Rúmenía, EM-umspil 8. október 2020
  • Ísland 0-3 Danmörk, Þjóðadeildin 11. október 2020
  • Ísland 1-2 Belgía, Þjóðadeildin 14. október 2020
  • Ungverjaland 2-1 Ísland, EM-umspil 12. nóvember 2020
  • Danmörk 2-1 Ísland, Þjóðadeildin 15. nóvember 2020
  • England 4-0 Ísland, Þjóðadeildin 18. nóvember 2020
  • Þýskaland 3-0 Ísland, undankeppni HM, 25. mars 2021
  • Armenía 2-0 Ísland, undankeppni HM, 28. mars 2021



Fleiri fréttir

Sjá meira


×