Fótbolti

Ísland niður fyrir Finnland eftir ein óvæntustu úrslitin

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hafa hæst náð að koma Íslandi í 18. sæti heimslistans, á HM-árinu 2018. Nú er Ísland 36 sætum neðar.
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hafa hæst náð að koma Íslandi í 18. sæti heimslistans, á HM-árinu 2018. Nú er Ísland 36 sætum neðar. EPA-EFE/VAHRAM BAGHDASARYAN

Tap Íslands gegn Armeníu í gær telst til einna af óvæntustu úrslitum 2. umferðar í undankeppni HM karla í fótbolta í Evrópu.

Ísland, sem var í 46. sæti á síðasta styrkleikalista FIFA, tapaði 2-0 gegn Armeníu sem er í 99. sæti listans.

Samkvæmt hollenska fyrirtækinu Gracenote, sem heldur utan um alls konar íþróttatölfræði, var útisigur Lúxemborg gegn Írlandi sá óvæntasti í 2. umferð. 

Sigur Tyrklands gegn Noregi, 3-0, í leik sem reyndar fór fram á Spáni vegna kórónuveirufaraldursins, þótti einnig mjög óvæntur. Tap Íslands var svo í 3. sæti yfir óvæntustu úrslitin.

Eftir 3-0 tapið gegn Þýskalandi og 2-0 tapið gegn Armeníu fer Ísland niður um átta sæti á styrkleikalista FIFA. Ísland er sem stendur í 54. sæti og þar með næstneðst af Norðurlandaþjóðum en Færeyjar eru neðar.

Ísland er í 30. sæti af Evrópuþjóðum og í 54. sæti heimslistans, miðað við nýjustu úrslit. Ísland tapar 25,4 stigum og fer niður um átta sæti eftir töpin gegn Þýskalandi og Armeníufootball-ranking.com

Ísland mætir Liechtenstein á miðvikudag í síðasta leik sínum áður en nýr heimslisti verður birtur en mun lítið geta lagað stöðu sína. Liechtenstein er þriðja neðsta Evrópuþjóðin á heimslistanum og sigur myndi því aðeins færa Íslandi örfá stig á listanum. Jafntefli gegn svo slöku liði myndi þýða fleiri mínusstig en tapið á móti Þýskalandi hafði í för með sér, og tap myndi skila Íslandi niður í 58. sæti heimslistans eða þar um bil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×