„Á þessu kjörtímabili sem senn er að ljúka hef ég sinnt ábyrgðarstörfum m.a. sem formaður fjárlaganefndar ásamt því að vera starfandi þingflokksformaður. Auk þess hef ég setið í efnahags- og viðskiptanefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og forsætisnefnd. Kjörtímabilið hefur verið viðburðaríkt og óvenju krefjandi, held ég að sé óhætt að segja,“ segir Willum.
„Næstu misseri verða mikilvæg í viðspyrnunni og miklar áskoranir m.a. á sviði efnahagsmála, ríkisfjármála og atvinnumála. Stór mál sem þarf að takast á við af ábyrgð, festu og skynsemi.“
Hann segist trúa því að reynsla sín af þeim ábyrgðarstörfum sem honum hafi verið trúað fyrir komi að góðum notum við þær áskoranir sem framundan séu.
„Ég óska því eftir að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum og bið áfram um stuðning ykkar í 1. sæti lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.“