Fótbolti

Dómarinn baðst afsökunar á því að hafa ekki dæmt mark Ronaldo gilt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo mótmælir harðlega við hollenska aðstoðardómarann sem missti af því þegar boltinn fór yfir marklínuna.
Cristiano Ronaldo mótmælir harðlega við hollenska aðstoðardómarann sem missti af því þegar boltinn fór yfir marklínuna. EPA-EFE/MIGUEL A. LOPES

Hollenskur dómari hefur beðið Cristiano Ronaldo og portúgalska landsliðið afsökunar eftir að hafa gert mistök í leik i undankeppni HM.

Hollendingurinn Danny Makkelie dæmdi leik Serbíu og Portúgals í A-riðli undankeppni HM 2022 en leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.

Cristiano Ronaldo skoraði samt sigurmark í uppbótatíma leiksins en hvorki dómarinn ná aðstoðardómarinn sá það að boltinn fór yfir marklínuna.

Ronaldo gjörsamlega trompaðist en fékk aðeins gult spjald að launum frá Danny Makkelie fyrir mótmælin.

Portúgalska blaðið A Bola hafði upp á Danny Makkelie og ræddi við hann um þennan umdeilda dóm.

„Samkvæmt reglum FIFA þá er það eina sem ég get sagt um þetta mál er að ég bað landsliðsþjálfarann, herra Fernando Santos, og allt portúgalska landsliðið afsökunar á því sem gerðist,“ sagði Danny Makkelie við blaðamann A Bola.

„Við í dómarateyminu reynum alltaf okkar besta til að taka réttar ákvarðanir. Við erum ekki ánægðir þegar við komust í fréttirnar eins og núna,“ sagði Makkelie.

Annað mál er síðan framkoma Cristiano Ronaldo eftir atvikið og eftir leikinn. Hann gæti fengið bann fyrir hana en hann missti sig alveg enda var tekið af honum sigurmark á úrslitastundu.

Makkelie er 38 ára gamall og hefur verið alþjóðadómarinn síðan 2008. Hann dæmdi meðal annars úrslitaleik Evrópudeildarinnar árið 2020 á milli Internazionale og Sevilla sem spænska liðið vann.

Fernando Santos talað um það eftir leikinn að dómarinn hefði beðist afsökunar og sagt að hann skammaðist sín fyrir mistökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×