Fótbolti

Helgi vildi ekki segja Arnari frá neinum smáatriðum um lið Liechtenstein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Kolviðsson sést hér frá tíma sínum sem landsliðsþjálfari Liechtenstein.
Helgi Kolviðsson sést hér frá tíma sínum sem landsliðsþjálfari Liechtenstein. Getty/Harry Langer

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, leitaði sér upplýsinga um landslið Liechtenstein hjá Helga Kolviðssyni, fyrrverandi þjálfara Liechtenstein.

Arnar ræddi samtalið á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í dag.

Helgi Kolviðssyni var þjálfari landsliðs Liechtenstein frá 2018 til 2020 og þekkir því leikmann landsliðsins mjög vel. Hann stýrði liðinu í undankeppni EM og svo í Þjóðadeildinni.

„Hann er landi okkar og fyrrverandi liðsfélagi minn úr landsliðinu. Hann talaði af virðingu um Liechtenstein og vildi ekki fara út í nein smáatriði. Það sýnir hvernig maður hann er, að hann beri svona mikla virðingu fyrir fyrri vinnuveitendum sínum. En við ræddum um DNA liðsins,“ sagði Arnar Þór.

Það mátti sjá Helga Kolviðsson mæta á æfingu íslenska liðsins í gær.

Arnar Þór býst ekki við auðveldum sigri á móti Liechtenstein.

„Ég býst ekki við auðveldum sigri. Það eru ekki margir auðveldir leikir í nútímafótbolta. Við höfum auðvitað greint andstæðinginn og skoðað sérstaklega síðustu tvo leiki, undir stjórn nýs þjálfara. Við erum með góða mynd af því hvernig þeir spila en vitum að þeir geta farið mismunandi leiðir,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×