Skoðun

Auka­fjár­veiting til lög­reglu vegna eld­gossins

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar

Mikið mæðir nú á viðbragðsaðilum á Suðurnesjum. Nú þegar hafa 16 þúsund manns komið að sjá gosið í Geldingadölum og það hefur kallað á mikla viðveru við umferðarstjórnun og almenna gæslu. Lögreglan á Suðurnesjum starfar á útkallsþungu svæði og allir óvæntir viðburðir, sem kalla á viðveru hennar, geta sett strik í reikninginn hvað varðar fjármögnun. Verkefni stjórnvalda er að tryggja aukfjármagn á svæðið.

Ekkert embætti getur gert ráð fyrir eldgosi í fjárhagsáætlun sinni. Hin almenna löggæsla hefur, því miður, ekki verið nægilega fjármögnuð eða mönnuð og það er morgunljóst að viðburður eins og eldgosið hefur mikil fjárhagsleg áhrif á Lögregluna á Suðurnesjum. Hún þarf að festa lögreglumenn við eldgosið sem er hægara sagt en gert í því mönnunarástandi sem uppi er.

Við þetta bætist að á sama tíma hefur verið unnið að því að bæta við auka mannskap og vöktum til að brúa bilið vegna styttingu vinnuvikunnar. Það eru fordæmi fyrir því að greiða aukalega þegar óvænt útgjöld koma upp og ég hvet ráðherra til að bregðast hratt við með aukafjárveitingu.

Alþingi gæti síðan þurft að huga að því að koma inn auknum fjármunum á svæðið í gegnum fjárauka, bæði til löggæslu en einnig til annarra viðbragðsaðila. Álagið á heimafólki er mikið, björgunarsveitir standa vaktir dag eftir dag. Það er ekki hægt að ætlast til þess að slíkt sé gert aðeins á því frábæra sjálfboðaliðastarfi sem björgunarsveitirnar stunda. Þær hafa enn og aftur sýnt hve mikilvægar þær eru íslensku samfélagi.

Þegar er farið að huga að því að koma fjármunum til svæðisins í gegnum framkvæmdasjóð ferðamannastaða og er það vel. Það þarf hins vegar að tryggja að kostnaður lendi ekki á hinum mikilvægu viðbragðsaðilum á svæðinu. Ég skora á ráðherra að gefa strax út yfirlýsingu um að Lögreglunni á Suðurnesjum verði bættur allur sá kostnaður sem felst af gosinu. Hún á svo minn stuðning vísan á þingi við að koma þeim fjármunum í fastara form.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×